Rannsóknarmenn frá Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi, opinberri stofnun sem rannsakar fjársvik, eru á leið til Íslands til að rannsaka tengsl milli gamla Kaupþings og bresku íþróttavörukeðjanna JJB Sports og Sports Direct.
Þetta kemur fram í frétt Crain's Manchester Business í morgun. Þar segir að Chris Ronnie hafi keypt hlut Davids Whelan í JJB í félagi við íslenska félagið Exista. Til kaupanna hafi verið notað lán frá gamla Kaupþingi.
Ronnie hafi síðan misst hlut sinn þegar bankinn varð gjaldþrota. Í kjölfarið hafi hann horfið frá JJB. SFO og Office and Fair Trading (OFT), sem hefur eftirlit með viðskiptaháttum, staðfestu í síðustu viku að stofnanirnar væru að rannsaka íþróttavöruverslanakeðjurnar vegna gruns um ólöglegt verðsamráð.
JJB klagaði keppinaut sinn og afhenti OFT gögn með því skilyrði að njóta friðhelgi.