Skrifi undir heit en ekki eið

Frá landsfundi Borgarahreyfingarinnar.
Frá landsfundi Borgarahreyfingarinnar.

Ný lög Borgarahreyfingarinnar, sem samþykkt voru á landsfundi hreyfingarinnar á laugardag, tóku talsverðum breytingum frá upphaflegri tillögu, sem fyrst var samþykkt, og til endanlegrar niðurstöðu.  

Meðal annars var í upphaflegri tillögu gert ráð fyrir að frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar til Alþingis skuli sverja eið á félagsfundi og heita því að gera á Alþingi allt sem í þeirra valdi standi til að framfylgja opinberi stefnu Borgarahreyfingarinnar. Myndi viðkomandi segja af sér þingmennsku ef hann væri af einhverjum sökum ófær eða óviljug/ur um að framfylgja þessari stefnu.

Í endanlegum lögum segir: Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar skulu skrifa undir eftirfarandi heit:

Ég (fullt nafn frambjóðanda) heiti því að vinna eftir bestu getu að stefnu hreyfingarinnar eins og hún er samþykkt á landsfundi. Gangi sannfæring mín gegn meginstefnu hreyfingarinnar mun ég leitast eftir því að gera félagsfundi grein fyrir því og leggja í dóm félagsfundar hvort ég skuli víkja sæti við afgreiðslu þess máls.

Félagsfundir skulu leysa úr ágreiningsmálum innan hreyfingarinnar og reyna í hvívetna að leita sátta. Félagsfundir hafa vald til að skipa til þess sáttanefnd. Sýnist félagsfundi sáttaleiðin ófær hefur hann vald til að áminna félagsmenn, lýsa á þá vantrausti og víkja þeim úr hreyfingunni. Tillögur um áminningu, vantraust og brottvikningu skulu vera skriflegar, útskýra ástæður og undir hana skulu skrifa þeir sem eru með og þeir sem eru á móti. Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins. Endanleg ákvörðun um brotvikningu skal tekin á næsta aðalfundi.

Á landsfundinum var gagnrýnt að gert væri ráð fyrir brottrekstri úr hreyfingunni. Lagagreinin tók nokkrum breytingum á fundinum og er nú svona:

Félagsfundir skulu leysa úr ágreiningsmálum innan hreyfingarinnar og reyna í hvívetna að leita sátta. Félagsfundir hafa vald til að skipa til þess sáttanefnd. Sýnist félagsfundi sáttaleiðin ófær hefur hann vald til að áminna félagsmenn, lýsa á þá vantrausti. Tillögur um áminningu, vantraust og brottvikningu skulu vera skriflegar, útskýra ástæður og undir hana skulu skrifa þeir sem eru með og þeir sem eru á móti. Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.

Lög Borgarahreyfingarinnar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka