Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði á fundi borgarstjórnar að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hefði ekkert lært með sölu á hlut OR í HS Orku til Magma Energy.
Dagur sagðist hafa staðið í þeirri trú að eftir REI-málið hefði skapast samstaða í borgarstjórn um að stöðva hraðeinkavæðingu orkufyrirtækjanna og að tryggja hag borgarbúa. Líkt og í REI-málinu væri áhættan nú öll almenningsmegin en gróðinn ætti að komast í hendur einkaaðila.
Er borgarstjórinn tilbúinn að gef Reykvíkingum tryggingar fyrir því að tapið, sem Orkuveitan getur orðið fyrir vegna sölunnar á hlutnum í HS Orku, verði ekki innheimt með hækkun á hita og rafmagni," spurði Dagur. Á meðan hróp voru gerð að borgarstjóra, þá fékk Dagur mikið lófaklapp og húrrahróp frá viðstöddum fjölmörgum áhorfendum í Ráðhúsinu.
„Það væru landráð að samþykkja þennan samning,“ hrópaði einn viðstaddra á pöllunum að lokinni ræðu Dags.
Sams konar viðbrögð fékk Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sem nú er í ræðupúlti. Hann sagði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa hafið þessa vegferð, við einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Hann sagði það ekki í þágu neytenda að stuðla að einkavæðingu orkufyrirtækja. Verið væri að gæta hagsmuna fjármagnseigenda en ekki almennings, líkt og gert hefði verið með einkavæðingu bankanna.