Engin viðbrögð enn vegna Icesave-fyrirvara

„Ég fæ það ekki staðfest hér að formleg viðbrögð hafi borist,“ segir Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi í forsætisráðuneytinu um viðbrögð Hollendinga og Breta vegna fyrirvara sem Alþingi gerði við ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamninganna.

Alþingi samþykkti frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna 28. ágúst, á síðasta starfsdegi sumarþings. Í kjölfarið voru Hollendingum og Bretum kynntir fyrirvararnir en engin formleg viðbrögð hafa borist enn.

Báðar þjóðir hafa síðan kallað eftir útskýringum á fyrirvörunum sem embættismenn í ráðuneytum hér heima hafa gefið. Engir formlegir fundir eru fyrirhugaðir með Bretum eða Hollendingum vegna fyrirvaranna, heldur er þess vænst að þjóðirnar fallist á þá, að fengnum frekari útskýringum.

Úr fjármálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að viðbrögðin bærust vonandi innan tíðar og að þau yrðu væntanlega kynnt um leið og þau bærust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert