Erfitt að fá viðtal við Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mlb.is/Eggert

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur verið gagnrýnd mjög fyrir að veita ekki erlendum fjölmiðlum viðtöl. Frakkinn Hughes Beaudouin var skiptinemi í Neskaupstað 1986 og starfaði síðar í franska sendiráðinu í Reykjavík; hann talar ágæta íslensku. Beaudouin er nú fréttaritari TF1, langstærstu sjónvarpsstöðvar Frakklands, í Brussel. Hann hefur tvisvar komið hingað til lands í sumar, fyrst í byrjun maí og síðan í ágúst til að reyna að fá viðtal við ráðherrann um Evrópumálin. Beaudouin bauðst til að tala við Jóhönnu á íslensku.

„Ég talaði við Kristján Kristjánsson [sem var fréttafulltrúi ráðuneytisins] í fyrri ferðinni,“ segir Beaudouin. „Hann tjáði mér að ekki væri búið að ganga frá tillögunni um umsókn að ESB og tíminn því óheppilegur, málið væri enn of viðkvæmt. Ég held að það hafi verið hann sem sagði mér að Jóhanna væri smeyk við að tala við erlenda fjölmiðla um Evrópumálin, aðallega vegna þess að hún talaði ekki góða ensku. En einnig vegna þess að einu sinni hefðu ummæli sem hún lét falla verið ranglega þýdd og niðurstaðan orðið fjölmiðlafár. Hún væri því mjög varkár við erlenda fjölmiðla.

Ég sagði þá Kristjáni að ég myndi koma þegar búið væri að afgreiða umsóknina og kom aftur í ágúst. Ekki gekk þetta samt þá en ég sagði honum að ég myndi sennilega koma aftur í október. Fáir franskir fréttamenn tala íslensku og kollegar mínir, sem oft spyrja mig um gang mála hér, segja mér að gefast ekki upp, vera þrautseigur!

Ég hitti ráðherrann reyndar, ég var staddur í þinginu þegar greidd voru atkvæði um Icesave-málið. Ég skildi vel að hún myndi vera hikandi við að ræða þau mál við erlenda fréttamenn. Én mér datt í hug að mér gengi kannski betur að fá viðtal ef hún hitti mig augliti til auglitis og sagði henni að ef hún vildi tala við mig á íslensku væri það ekki neitt vandamál. Hún svaraði: Við skulum sjá til,“ segir Hughes Beaudouin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert