Tveir karlmenn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 2. október fyrir að reyna að smygla 5995 e-töflum til landsins í niðursuðudósum. Mennirnir voru handteknir á Keflavíkurflugvelli um helgina þegar þeir komu með flugvél frá Varsjá.
2647 e-töflur fundust faldar í niðurstuðudósum í farangri annars mannsins. Hinn maðurinn var handtekinn þar sem hann var talinn samverkamaður fyrra mannsins og fundust í farangri hans 3348 e-töflur, einnig í niðursuðudósum.
Báðir mennirnir eru pólskir. Héraðsdómur Reykjaness féllst á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir þeim og Hæstiréttur hefur nú staðfest þann úrskurð, m.a. með vísan til þess að um sé að ræða erlenda menn sem ætla megi að muni reyna að komast úr landi eða leynast verði þeim ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi.