Endurskipulagning á skuldum heimila og fyrirtækja er mikilvæg fyrir endurreisn efnahagslífsins. Án aðgerða sem lúta að endurskipulagningu á þessum skuldum er veruleg hætta á því að hagkerfið lendi í vítahring gjaldþrota, greiðsluerfiðleika og atvinnuleysis.
Nú fer hins vegar að hylla undir að þetta verkefni geti hafist, enda er endurskipulagning skulda yfirleitt þriðja verkefnið eftir kerfislægt hrun. Fyrstu tvö verkefnin eru að lágmarka skaðann og svo að endurheimta þjóðhagslegan stöðugleika, svo sem að ná stjórn á gengismálum og verðbólgu. Endurskipulagning skuldanna er vandasöm í mótun og framkvæmd og tekur að jafnaði nokkur ár.
Þetta var á meðal þess fram kom í erindi sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, hélt á málstofu í Seðlabankanum í dag, en erindið nefndist ,,Endurskipulagning skulda heimila og fyrirtækja í kjölfar kerfislægrar fjármálakreppu.” Reifaði hann þar nokkra lærdóma sem dregnir hafa verið af þeim ríflega 120 kreppum sem átt hafa sér stað í heiminum á síðustu 40 árum
Sagði hann jafnframt að stjórnvöld væru yfirleitt mikilvæg í því að koma endurskipulagningu skuldanna af stað, því mikill samræmingarvandi blasi yfirleitt við bönkum og einkaaðilum við aðstæður eins og þessar. Þar að auki sýni reynslan að dómstólar séu yfirleitt illa undirbúnir til að takast á við það umfang gjaldþrotamála sem upp komi.
,,Reynslan sýnir að aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum dragast oft á langinn með kostnaðarsömum afleiðingum, auk þess sem ekki hefur verið gætt nægilegs samræmis milli endurskipulagningar skulda og annarra aðgerða stjórnvalda, einkum endurreisnar bankakerfisins," sagði Þorvarður Tjörvi. Þetta dragist oft á langinn þar sem endurskipulagning skulda feli í sér að dreifa byrðum á ný bök, sem sé flókið pólitískt mál. Í mörgum tilfellum hafi þetta orðið til þess að stjórnvöld hafi beðið og vonast til þess að vandinn myndi leysast af sjálfum sér.
Lýsti hann því hvernig stjórnvöld hafa val um þrjár nálganir við það verkefni að endurskipuleggja skuldir. Í fyrsta lagi miðstýrða leið, þar sem stjórnvöld eru sjálf í lykilhlutverki við endurskipulagningu skulda. Í öðru lagi valddreifð leið, þar sem endurskipulagningin fer fram í samstarfi skuldara og kröfuhafa. Í þriðja lagi blönduð leið þar sem hið opinbera veitir takmarkaða almenna aðstoð en endurskipulagning skuldanna er að mestu leyti látin fara fram í samstarfi skuldara og kröfuhafa.Lýsti hann kostum og göllum hverrar leiðar fyrir sig í grófum dráttum.
Nánar verður fjallað um erindi Þorvarðar Tjörva í Morgunblaðinu á morgun.