Ríkið greiði viðbótarkostnað vegna persónukjörs

Samband íslenskra sveitarfélaga telur eðlilegt að ríkissjóður bæti sveitarfélögunum þann viðbótarkostnað sem hlýst af persónukjöri við sveitarstjórnarkosningar. Kostnaðaraukinn er talinn verða á bilinu 9 til 14 milljónir króna við hverjar kosningar, aðallega vegna tímafrekari talningar.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent allsherjarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp persónukjör í sveitarstjórnarkosningum hér á landi.

Heimild frekar en lagaskylda

Sambandið segir að skiptar skoðanir séu meðal sveitarstjórnarmanna um málið. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist sú hugmynd njóta töluverðs stuðnings að kveða á þessu stigi aðeins á um heimild til sveitarstjórna til þess að ákveða að viðhafa persónukjör fremur en að skylda öll sveitarfélög til þess að taka upp þá kosningaaðferð. Sambandið telur að binda mætti slíka ákvörðun því skilyrði að aukinn meirihluti í sveitarstjórn samþykki slíka tillögu.

Með því móti telur sambandið að gera mætti tilraun  með persónukjör í nokkrum sveitarfélögum við næstu sveitarstjórnarkosningar og meta í framhaldinu hvort ástæða er til að lögfesta persónukjör við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar.

Þá veltir sambandið því upp hvort stjórnmálaflokkar eigi að hafa val um það hvort þeir stilla upp röðuðum eða óröðuðum lista.

Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hróflað verði við listakosningu og hlutfallskosningakerfinu hér á landi heldur hefur ákvæði um persónukjör aðeins áhrif á það hvaða frambjóðendur hvers lista hreppa þau sæti sem listinn fær í sveitarstjórn samkvæmt niðurstöðum kosninga.

Þær raddir heyrast hins vegar meðal sveitarstjórnamanna að persónuval eigi að vera ríkara í sveitarstjórnarkosningum en í alþingiskosningum, þ.e. að kjósendum verði heimilt að velja frambjóðendur þvert á lista, enda nálægð við frambjóðenda við kjósendur meiri en í alþingiskosningum.

Talning atkvæða tímafrekari

Samband íslenskra sveitarfélaga dregur fram nokkra mögulega ókosti við persónukjörið.

  • Bent er á að með persónukjöri sé á engan hátt tryggt að jafnræði verði meðal kynjanna í efstu sætum framboðslista.
  • Talin er aukin hætta á innbyrðis átökum innan framboðslista í aðdraganda kosninga.
  • Bent hefur verið á að erfitt gæti reynst að fá fólk til að gefa kost á sér í óraðaðan hluta farmboðslista, þar sem það gæti átt á hættu að ná kjöri í sveitarstjórn, án þess að vera tilbúið að leggja á sig þá vinnu sem  því fylgir.
  • Þá telur sambandið að persónukjör torveldi það að stjórnmálahreyfingar sameinist um framboðslist, líkt og nokkuð hefur tíðkast á sveitarstjórnarstigi.
  • Í fimmta lagi er á það bent að það muni taka kjósendur nokkurn tíma að venjast nýrri kosningaaðferð. Hætta sé á að umtalsverður hluti kjósenda muni ekki taka þátt í persónukjörinu heldur einungis kjósa viðkomandi lista eða einungis merkja við fáa frambjóðendur. Þá sé mögulegt að einhverjir kjósendur nýti ekki atkvæðisrétt sinn  vegna þess að þeim þyki hin nýja aðferð of flókin.
  • Loks er bent á að talning atkvæða verði mun tímafrekari en áður og megi vænta þess að niðurstaða í persónukjöri muni, a.m.k. í fjölmennustu sveitarfélögunum, ekki liggja fyrir fyrr en einhverjum sólarhringum eftir kjördag.

Vilja skoða aðrar leiðir

Samband íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt að skoða hvort aðrar leiðir séu jafn vel eða betur fallnar til að auka áhrif kjósenda en sú aðferð sem lögð er til í frumvarpi um persónukjör. Stjórn sambandsins er þó eindregið þeirrar skoðunar að útstrikanir séu ekki ákjósanleg aðferð til að ákveða endanlega röð frambjóðenda.

Sambandið bendir á að undirbúningur sveitarstjórnarkosninga er um það bil að hefjast og hvetur sambandið til þess að óvissu um breytingar á kosningafyrirkomulagi verði eytt hið fyrsta. Náist ekki samstaða um persónukjör í sveitarstjórnarkosningunum 2010 vill sambandið að skoðað verði hvort opna megi á það að persónukjör fari fram í þeim sveitarfélögum þar sem samstaða er um málið.

Frumvarp um persónukjör

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert