Skoða frekari bótasvik námsmanna

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/SteinarH

Vinnumálastofnun ætlar á næstu dögum að samkeyra á ný greiðsluskrá vegna atvinnuleysisbóta frá í ágúst við nemendaskrár allra háskóla í landinu og ef til vill stærstu framhaldsskólanna. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að nemendur í lánshæfu námi séu jafnframt á atvinnuleysisbótum.

Greint var frá því í gær að 345 háskólastúdentar í lánshæfu námi voru skráðir atvinnulausir á síðasta skólaári og þáðu atvinnuleysisbætur sem þeir áttu ekki rétt á. Þetta kom í ljós þegar Vinnumálastofnun samkeyrði í ágúst, greiðsluskrá vegna atvinnuleysisbóta frá í maí við nemendaskrá Háskóla Íslands frá sama tíma.

Talið er að nemendurnir hafi þegið samtals um það bil 300 milljónir króna úr Atvinnuleysistryggingarsjóði á síðasta ári.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar segir að enn sé verið að fara yfir samkeyrsluna og vinna úr gögnum.

„Það komu fram 135 einstaklingar sem ekki höfðu gert svokallaðan námssamning við okkur um námið, sem hluta af virkni í atvinnuleysi. Hluti þessa fólks hefur haft skýringar á sínum aðstæðum og verða ekki krafðir um endurgreiðslu. Þessari vinnu er ekki lokið enda mjög tímafrek og mannaflsfrek vegna þess að rannsaka þarf hvert tilvik fyrir sig,“ segir Gissur.

Ekki er ljóst hve margir í örðum háskólum hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur umfram rétt.

Skoða framhaldsskólana líka

Gissur Pétursson segir að á næstu dögum ætli vinnumálastofnun að samkeyra á ný greiðsluskrá sína frá því í ágúst við nemendaskrár allra háskólanna á landinu og e.t.v. stærstu framhaldsskólanna.

„Það er gert til að koma í veg fyrir að þeir sem kunna að vera að sækja hefðbundið lánshæft nám og eru jafnframt á atvinnuleysisbótum geri það um langan tíma án þess að vera stöðvaðir,“ segir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Sýslumaðurinn á Blönduósi annast innheimtuna

Þeir nemendur sem verða uppvísir að því að þiggja atvinnuleysisbætur og hafa ekki skýringar á sínum aðstæðum, verða krafðir um endurgreiðslu bótanna, auk 15% álags. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að um slíka endurgreiðslu sé jafnan samið ef um háar upphæðir er að ræða og greiðslum þá dreift.

„Við höfum ekki mörg slík mál að styðjast við frá fyrri árum. Við eigum um þessar mundir í samstarfi við innheimtumann ríkissjóðs þ.e. sýslumannsembættið á Blönduósi um innheimtumál. Hann mun í framtíðinni sjá um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir stofnunina og þá verður það í hans höndum hversu hart er fram gengið. eins gæti orðið um einhverskonar skuldajöfnun að ræða vegna annarra greiðslna sem viðkomandi kann að eiga rétt á frá ríkissjóði,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka