„Það verður að leysa þetta núna“

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Ómar

Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd, hefur farið fram á fund í nefndinni vegna ástandsins í fangelsismálum hér á landi. „Þetta er neyðarástand og það sem ég er búin að vera benda á er að mér finnst að það eigi að endurskoða þennan málaflokk frá grunni,“ segir hún.

Hún bætir við að á næstu fimm árum verði stjórnvöld að finna hentug húsnæði og taka þau á leigu til að leysa þennan bráðavanda, enda fangelsi í landinu yfirfull og langur biðlisti sé eftir afplánun. „Menn sem bíða dóms hafa ekkert tíma til þess að einhver fangelsi séu byggð til að þeir geti tekið út dóminn sinn. Það verður að leysa þetta núna,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Hún segir að það ríki mikill glundroði í þessum málum. „Þetta snýr líka að mannréttindum þeirra sem brjóta af sér. Þeir hafa sín réttindi og samkvæmt stjórnarskránni eiga allir að fá úrlausn sinna mála fyrir óháðum dómstólum. En þá verður líka að vera eitthvað úrræði til staðar til að taka við þeim, sem eru dæmdir fyrir það að brjóta lög.“

Vigdís segir að stefnt sé að því að fá fulltrúa frá Fangelsismálastofnun og fangelsana á fund nefndarinnar. Formaður allsherjarnefndar hafi tekið málið til greina og reyni nú að finna hentugan tíma. Vigdís fer fram á að fundurinn verði verði haldinn sem fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert