Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, lagði fram tillögu á fundi borgarstjórnar, fyrir hönd VG og Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að fresta afgreiðslu samnings um sölu á hlut OR í HS Orku, þar til að viðskiptaráðherra og nefnd um erlenda fjárfestingu hefðu fjallað um samninginn og lögmæti hans.
Hiti á áhorfendapöllum
Mikill hiti er í áhorfendum á pöllum í Ráðhúsinu sem gripið hafa ítrekað fram í ræðu Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Hefur Júlíus Vífill Ingvarsson, sem fer með fundarstjórn, hefur beðið fólk um að sýna stillingu og kurteisi. „Svikarar, svikarar,“ er meðal þess sem hrópað hefur verið og þegar Óskar hóf ræðu sína var kallað: „Afhjúpaðu leynimakkið“ og annar áhorfandi kallaði: „Hættu þessum slepjuskap".
Sagði Júlíus Vífill að svo gæti farið að fundi borgarstjórnar yrði frestað, ef frammíköllum linnti ekki.
Óskar svaraði áheyrendum og sagði m.a.: „Sannleikanum verður hver sárreiðastur." Bað hann viðstadda að hlusta á ræðuna og heyra hvernig atburðarásin hefur verið í málinu. Gagnrýndi Óskar m.a. framgöngu ráðherra í ríkisstjórninni, einkum heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra, sem opinberlega hefðu lýst sig andsnúna sölunni á hlut OR í HS Orku.