Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Kísilverksmiðju í Helguvík og varaaflstöð rafræns gagnavers að Ásbrú. Bæði fyrirtækin eru í Reykjanesbæ.Framkvæmdir eru hafnar við gagnaverið en stór hluti þess nýtir vöruskemmur sem fyrir voru að Ásbrú með umtalsverðum breytingum innanhúss, að því er segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
Enn er unnið að samningum við erlenda þjónustukaupendur en viðræður við fjármálaráðuneytið vegna þess hafa tafið verkefnið, samkvæmt tilkynningu.
Líkt og fram hefur komið á mbl.is kemur fram í starfsleyfi vegna kísilverksmiðju sem fyrirhugað er að starfrækja í Helguvík, er heimilt að framleiða 50 þúsund tonn af hrákísli, en Íslenska kísilfélagið fyrirhugar að vinna sólarkísil til framleiðslu á sólarhlöðum í öðru skrefi framleiðslunnar.
Um 150 manns munu verða við vinnu á byggingartíma sem áætlaður er 2 ár. Gert er ráð fyrir að útboð verkefna hefjist í nóvember. Starfsmannafjöldi í verksmiðju í þessum 1. áfanga er um 90 manns.
„Þetta eru ánægjuleg tíðindi, sérstaklega í kjölfar jákvæðra upplýsinga um samninga Norðuráls um fjármögnun álvers í Helguvík." segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri, í fréttatilkynningu og segir fleiri verkefni í farvatninu.