Hann var alltaf einn

Hann grét af vanlíðan þegar öll börn í bænum voru úti að leika. Hann var alltaf einn og þorði ekki að banka hjá skólafélögum og biðja þau um að leika við sig. Og hann vildi alls ekki hringja. Þannig lýsir móðir drengnum sínum sem er tólf ára í dag og hefur glímt við sértæka málþroskaröskun.

 Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós mikil tengsl námserfiðleika og tal og málþroskaröskunar en fræðsla um þetta hefur ekki náð til fulls inn í skólakerfið. Fjöldi fólks bindur miklar vonir við stofnun hagsmunasamtaka í þágu barna og unglinga með þetta vandamál. Stofnfundurinn er í kvöld í fyrirlestrarsalnum Skriðu í gamla Kennaraháskólanum við Stakkahlíð.

Bjarni Friðrik sonur Þórdísar Bjarnadóttur og Ófeigs Leifssonar fékk aldrei að leika við hina krakkana í leikskólanum nema hann gæti verið gamla veika amman eða hundurinn eða gert eitthvað annað sem ekki krafðist þess að hann tjáði sig. Hann var ljúft og skapgott barn sem glímdi við gríðarlega námserfiðleika en vegna þess að hann hafði sig ekki í frammi uppgötvaðist vandamálið seint. Kennararnir tóku ekki eftir því að neitt væri að.

 Þetta vandamál liggur í ættum. Ófeigur Leifsson pabbi stráksins glímdi sjálfur við svipaðan vanda en líkt og sonurinn fleytti hann sér langt á því að brosa framan í heiminn. Hann átti erfitt með nám og lærði seint að lesa. Á þeim árum var þetta kallað seinfærni. Hann segist hafa bitið á jaxlinn og gefið í og í dag gangi honum vel.

Þórdís og Ófeigur vonast til að samtökin geti stuðlað að fræðslu, dregið úr fordómum og þrýst á að öll börn með tal og málþroskaröskun eigi kost á aðstoð óháð búsetu en 146 börn greindust í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka