Heimdallur andvígur sölubanni á tóbaki

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, leggst gegn tillögum Læknafélags Íslands um bann við sölu tóbaks sem kynntar voru á tóbaksvarnarþingi félagsins á dögunum. Í ályktun stjórnar Heimdalls segir að sá rökstuðningur Læknafélagsins um að reykingar valdi samfélagslegum kostnaði sé tæpast nægur grundvöllur til að banna alfarið sölu á tóbaki.

Tóbaksvarnaþing Læknafélags Íslands samþykkti á dögunum ályktun þar sem hvatt er til þess að Ísland verði fyrsta landið í heiminum til að taka tóbak alfarið úr almennri sölu.

Stjórn Heimdallar segir að tillagan um sölubann ásamt hugmyndum um hækkun lögaldurs til tóbakskaupa og hærri álögur á tóbak byggi á hugmyndinni um að hið opinbera hafi vit fyrir fólki og taki af þeim eða þrengi möguleika þess til að haga sínu lífi eins og það telur best.

Heimdallur telur að beita eigi öðrum aðferðum. Reykingar valdi vissulega skaða en það sama eigi við um margs konar aðra háttsemi og siði. Lausnin felist ekki í því að beita boðum og bönnum heldur að upplýsa og fræða fólk um skaðsemi reykinga. Hin endanlega ákvörðun sé og verði alltaf einstaklinganna.

„Sá rökstuðningur Læknafélagsins um að reykingar valdi samfélagslegum kostnaði er tæpast nægur grundvöllur til að banna alfarið sölu á tóbaki. Ef kostnaður heilbrigðiskerfisins við tiltekin vandamál verður grundvöllur til þess að banna viðkomandi vöru, hegðun eða háttsemi er ljóst að ansi margt af því sem fólk tekur sér fyrir hendur þyrfti að banna í kjölfarið,“ segir í ályktun stjórnar Heimdallar.

Stjórnin hvetur heilbrigðisráðherra til að leggjast gegn hugmyndum Læknafélagsins og beita skynsamlegri aðferðum við tóbaksvarnir í framtíðinni.

Ályktun Heimdallar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka