Mestu áhrif kreppunnar eru eftir

„Áhrif kreppunnar hér á landi eiga eftir að koma betur í ljós á næstu árum. Kreppan í Finnlandi kom niður á öllum á endanum og mikilvægt er fyrir kirkjuna, stjórnvöld og alla aðra hagsmunaaðila að grípa inn í sem fyrst. Mestu skiptir að koma strax til móts við skuldug heimili og þá sem verst standa, áður en vandamálin fara að hrannast upp,“ segir Heikki Hiilamo, finnskur prestur og doktor í þjóðfélagsfræðum og heimspeki, sem kom hingað til lands í vikunni til að taka þátt í fundi fulltrúa frá norrænum kirkjum um kreppuna og viðbrögð við henni.

Hiilamo hefur rannsakað viðbrögð við kreppunni í Finnlandi á níunda og tíunda áratug síðustu aldar út frá ýmsum hliðum, m.a. viðbrögð kirkjunnar. Margvíslegu hjálparstarfi var komið á laggirnar á vegum finnsku kirkjunnar á þessum tíma, eins og með matarúthlutun, súpueldhúsum og fjárhagslegum stuðningi við fólk sem var með miklar skuldir. Þá stóðu safnaðarheimilin opin fólki og sums staðar urðu þau að félagsmiðstöðvum fyrir atvinnulausa.

Atvinnuleysi fór í 22%

Hiilmao bendir á að fyrir kreppuna í Finnlandi hafi atvinnuleysi um nokkurn tíma ekki verið mikið, eða í kringum 3%. Á skömmum tíma fór það upp í 22% og fjöldi finnskra heimila lifði við fátæktarmörk.

„Þetta varð mjög djúp kreppa og mér sýnist vera uppi mjög svipaðar aðstæður hér á landi og voru hjá okkur. Þegar kreppan skall á hjá okkur voru finnsk heimili mjög skuldsett og íbúðirnar veðsettar upp í topp. Síðan hrundi fasteignaverðið og margar fasteignir fóru á uppboð. Fjöldi fólks missti allt sitt og þetta var nokkuð sem enginn bjóst við að gæti gerst í Finnlandi,“ segir Hiilamo, sem telur mikilvægast að taka á vanda þeirra sem skulda mest. Sá vandi geti fylgt fólki í mörg ár sé ekkert að gert.

Kreppan í Finnlandi hafði þau neikvæðu áhrif til langs tíma að fátækt hefur verið viðvarandi vandi meðal stórs hóps. Atvinnuleysi og félagsleg aðstoð er þannig umfangsmeiri í dag en fyrir kreppuna. Að sögn Hiilamo er finnska kirkjan enn að úthluta mat og veita fólki fjárhagslega aðstoð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert