Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra kynnti á fundi ríkistjórnarinnar í gær skipun ráðherranefndar um jafnréttismál. Í henni eiga sæti forsætisráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra, auk þess sem dóms- og kirkjumálaráðherra starfar með nefndinni að málefnum er varða mansal og heimilisofbeldi.
Ríkisstjórnin setti sér það markmið að leggja aukna áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi og veita málaflokki jafnréttismála aukið vægi innan stjórnkerfisins og er skipan ráðherranefndarinnar liður í því. Hún er einnig í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að forsætisráðuneytið fái aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk m.a. með stýringu samráðsnefnda ráðherra.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 8. maí 2009 segir að áhrif kvenna í endurreisn íslensks samfélags í kjölfar efnahagsþrenginga verði tryggð; að ríkisstjórnin beiti sér fyrir að jafna hlutföll kynjanna á öllum sviðum samfélagsins; og að kynjasjónarmið verði höfð að leiðarljósi í aðgerðum til atvinnusköpunar, við mótun heildstæðrar atvinnustefnu fyrir Ísland, ákvörðun útgjaldaramma og hagræðingaraðgerðir næstu fjögurra ára og við fjárlagagerð og efnahagsstjórn.
Þá er jafnframt kveðið á um að ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun, að lokið verði gerð jafnréttisstaðla á kjörtímabilinu og unnið frekar úr tillögum Jafnréttisvaktarinnar. Ennfremur er ásetningur um að efla starf jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.
Loks er kveðið á um að aðgerðaáætlun gegn mansali verði fylgt eftir svo og hugað að forvarnar- og viðbragðsáætlun til að bregðast við auknu heimilisofbeldi samfara versnandi efnahagsástandi.
Ráðherranefnd um jafnréttismál mun fylgja þessum markmiðum eftir, auk þess sem hún mun koma að gerð framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, áætlunar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir Stjórnarráðið í heild og jafnréttismats á einstaka stjórnarfrumvörpum, áætlunum og ákvörðunum sem haft geta áhrif á jafna stöðu kynjanna.