Samið um kjör ófaglærðra heilbrigðisstarfsmanna

Mynd efling.is

Efling og Hlíf hafa gengið frá kjarasamningi við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Samningurinn tekur meðal annars til fjölmennra hópa Eflingar sem starfa á hjúkrunarheimilum.

Samningurinn var undirritaður í liðinni viku og gildir frá 1. júlí 2009 til 30. nóvember 2010. Samningurinn tekur til Áss, Fells Grundar, Heilsustofnunar Náttúrulækningafélagsins, Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði, Kumbaravogs, Sjálfsbjargarheimilisins, Skógarbæjar, Sóltúns, Sunnuhlíðar, Víðiness og Vífilsstaða.

Samningurinn er sambærilegur við þá samninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði að undanförnu.

Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að 180 þúsund krónum hækka 1. júlí og 1. nóvember um 6.750 krónur í hvort skipta en laun upp að 210 þúsund krónum á mánuði hækka minna. Laun umfram 210 þúsund krónur hækka ekki.

Þá hækka laun allt að 285 þúsund krónum á mánuði um 6.500 krónur 1. júní 2010 en laun að 310 þúsund krónum á mánuði hækka minna. Laun umfram 310 þúsund á mánuði verða óbreytt.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um samninginn liggja fyrir 25. september. Samþykki félagsmenn samninginn munu launabreytingar skila sér í launaumslagið eigi síðar en um næstu mánaðamót. Einhverjar stofnanir eða fyrirtæki sem taka mið af þessum samningi hafa nú þegar hækkað laun starfsmanna í samræmi við breytingarnar.

Vefsíða Eflingar

Vefsíða Hlífar

Vefsíða SFH

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert