Heimilin eru ekki aflögufær og þau geta ekki borið hærri álögur, að því er segir í yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Samtökin velta fyrir sér hvers vegna þurfi að bjarga þremur bönkum þegar einn dugi fyrir landið. „Af hverju er eina lausn stjórnvalda að íþyngja heimilunum með hærri sköttum, þegar allir sjóðir heimilanna eru þegar þurrausnir?"
„Vegna frétta í fjölmiðlum undanfarna daga um að leiðrétting stökkbreyttra lána heimilanna megi ekki kosta ríkissjóð neitt, þá vilja Hagsmunasamtök heimilanna taka eftirfarandi fram:
Hér á landi ríkir vægast sagt furðulegt ástand. Nokkur fjármálafyrirtæki og eigendur þeirra fóru í krafti græðgi og eigin hagsmuna ránshendi um íslenskt samfélag. Skildu þessir aðilar heimili, fyrirtæki og sveitarfélög eftir í rjúkandi rústum og er þeim ætlað að bera tjón sitt óbætt.
Í staðinn fyrir að einbeita sér að því að endurreisa þessar þrjár meginstoðir samfélagsins, hefur athygli ríkisstjórnarinnar farið í að bjarga þeim sem frömdu glæpinn. Til þess hefur öllum ráðum verið beitt, svo sem eignaupptaka, skattahækkanir og niðurskurður í velferðarkerfinu.
Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki annað en velt fyrir sér af hverju það er gert. Af hverju þarf að bjarga þremur bönkum, þegar einn dugir fyrir þetta samfélag? Af hverju hefur ekkert verið gert til að létta álögum af skuldsettum heimilum? Af hverju er eina lausn stjórnvalda að íþyngja heimilunum með hærri sköttum, þegar allir sjóðir heimilanna eru þegar þurrausnir?
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla því, að stjórnvöld telji mikilvægara að endurreisa afsprengi svikamyllubankanna en að koma til móts við heimilin í landinu. Samtökin telja opinberum fjármunum sem fara í endurreisn bankanna illa varið, þeir eiga að fara í endurreisn heimilanna. Samtökin telja að endurreisn hagkerfisins verði ekki að veruleika nema með endurreisn heimilanna. Verði heimilunum stefnt í gjaldþrot, eins og margt bendir til að verði raunin, þá verður engin endurreisn hagkerfisins og þaðan af síður endurreisn bankakerfisins.
Nú er svo komið að heimilin eru ekki aflögufær
um meira. Þau geta ekki borið hærri
álögur. Björgun bankanna má því ekki
kosta heimilin neitt. Sjái núverandi
stjórnvöld ekki leið til að koma til móts við réttmæta og sanngjarna kröfu
Hagsmunasamtaka heimilanna að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla lána þeirra, þá
er hlutverki þeirra lokið. Heimilunum
gagnast ekki úrræðalaus stjórnvöld. Þetta snýst um okkar líf og framtíð barnanna
okkar," að því er segir í yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.