„Sjúklingum er refsað fyrir að reyna að bjarga sér sjálfir eða nýta sér aðstoð ættingja í stað úrræða sem kerfið býður upp á,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir.
Móðir hennar greindist með alzheimer fyrir um tveimur árum. María Th. Jónsdóttir, formaður Félags áhugafólks og aðstandenda alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, segir að samdrátturinn í heilbrigðiskerfinu mæði mest á fólki með heilabilun sem geti ekki bjargað sér. Ekki sé hægt að ætlast til þess að aðstandendur taki að sér umönnunina og allra síst aldraður maki. Það sé ljótt að ætlast til þess að aldraður einstaklingur annist sjúkling með heilabilun.
Hjördís segir að vistunarmatskerfið virðist ekki gera ráð fyrir fólki sem glími við alzheimer og gangi því ekki upp. Ekki gangi að meta alzheimerssjúklinga á sama hátt og aldraða.
Þegar sótt var um vistunarmat fyrir móður Hjördísar vegna dvalar á sambýli ráku börnin sig víða á fyrirstöður í kerfinu. „Við fengum neitun þar sem hún hafði ekki nýtt öll úrræði sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Hjördís, en móðir hennar hafði til dæmis ekki nýtt sér aðstoð við það að fara í bað.