Fundin hafa verið tímabundin störf fyrir á fimmta tug Íslendinga í Manitoba í Kanada samkvæmt nýjum samningi sem stjórnvöld í fylkinu gerðu við íslensk stjórnvöld eftir efnahagshrunið. Ólíklegt er talið að Íslendingarnir geti hafið störf fyrr en á næsta ári.
Fréttavefurinn Daily Commercial News hefur eftir Nancy Allan, ráðherra málefna innflytjenda í Manitoba, að fundist hafi störf fyrir 43 Íslendinga í sex fyrirtækjum. Störfin eru á sviðum heilsugæslu, byggingariðnaðar og menntunar. Allan var ánægð með árangurinn en sagði að enn væri nokkuð óunnið áður en Íslendingarnir gætu komið til Manitoba.
Nú stendur á stjórnvöldum í Ottawa að gefa vinnuveitendunum leyfi til að ráða Íslendingana. Meðal annars fylgjast þau með því að Íslendingarnir muni ekki taka störfin af hæfum Kanadamönnum eða standa í vegi fyrir að slíkir fái vinnu. Þá fylgjast þau einnig með því að Íslendingarnir verði ekki hlunnfarnir í launum.
Það tekur margar vikur að ganga frá starfsumsóknunum áður en leyfin verða veitt. Vonast er til að fyrstu umsóknirnar verði afgreiddar síðar í þessum mánuði. Síðan tekur nokkrar vikur að gefa atvinnuleyfin út. Ólíklegt er talið að nokkur Íslendinganna geti hafið störf fyrr en á næsta ári.
Alan sagði að Manitoba hafi ekki veitt starfsumsóknum Íslendinganna forgang og að í ferlinu verði tryggt að engir heimamenn missi vinnuna vegna innflytjenda.
Allan kom hingað á liðnum vetri og átti þá fundi m.a. með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þáverandi félagsmálaráðherra. Haldnir voru fjölmennir kynningarfundir hér um störf í Kanada og lýstu margir Íslendingar áhuga á að fá þar vinnu.