Uppbygging á heilsusjúkrahúsi í Reykjanesbæ

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. www.mats.is

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Health ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um að byggja sameiginlega upp heilsutengda starfsemi í sjúkrahúsi Kadeco á Ásbrú í Reykjanesbæ auk samnings um nýtingu á íbúðareignum.

Fram kemur í tilkynningu að Kadeco hafi undanfarin ár þróað hugmyndafræði heilsuþorps þar sem fyrirtæki tengd heilsu staðsetji sig á sama svæði og hafi samstarf á breiðum grundvelli.

Félagið Iceland Health muni stuðla að eflingu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Boðið verði upp á liðskiptaaðgerðir og offituaðgerðir sem og endurhæfingu eftir þessar aðgerðir. Þá verði boðið upp á öfluga endurhæfingu fyrir hjartasjúklinga og atferlismeðferðir til meðferðar á offituvanda.

Leitað hafi verið til færustu sérfræðinga í Skandinavíu og Bretlandi í þeim meðferðum sem í boði verði. Þegar hafi verið gerður samningur við lykilaðila.

Þá segir að faglegt ráðgjafaráð verði stjórn félagsins og framkvæmdastjórn til ráðgjafar. Í ráðgjafaráðinu sitji virtir sérfræðingar, Otto Nordhus brjóstholsskurðlæknir, Bjarni Semb hjartaskurðlæknir og Leif Ryd bæklunarskurðlæknir. Þá muni vera í ráðinu sérfræðingur á sviði offitu og endurhæfingar.

Viðskiptavinir Iceland Health verða einkum yfirvöld annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi eða stórar norrænar stofnanir sem eiga erfitt með að uppfylla skuldbindingar sínar við yfirvöld hvað varðar fjölda aðgerða/meðferða. Þá mun hluti þjónustuþega vera ríkisborgarar annarra ríkja Norðurlanda og Bretlands sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir læknismeðferð, sem þeir sannanlega þurfa á að halda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert