Stjórn Eldingar, félag smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum tekur heilshugar undir með Sjómannafélagi Íslands um að atvinnurekendur eigi ekki sæti í stjórnum lífeyrissjóðanna.
Stjórn Eldingar þingaði í liðinni viku. Fjölmörg stéttarfélög, þar með talið Sjómannafélag Íslands hafa ályktað gegn setu fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða. Í ályktun Sjómannafélags Íslands sem samþykkt var í byrjun mánaðarins segir að við blasi að fjármunir flestra lífeyrissjóða séu eign launafólks en ekki atvinnurekenda. Menn fari yfirleitt best með eigið fé og því sé það farsælast fyrir launafólk í landinu að það sjálft ákveði alfarið hverjir stýra sjóðum þess. Þá eru önnur stéttarfélög í landinu hvött til að endurskoða þátttöku atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða.
Stjórn Eldingar tekur heilshugar undir þessa ályktun.
Þá mótmælir stjórn Eldingar harðlega öllum tillögum um breytingar eða afnámi sjómannafsláttar. Sjómannaafsláttur hefur verið við lýði í ríf fjörutíu ár en honum var upphaflega komið á þegar illa gekk að manna fiskiskipaflotann. Talið er að ríkissjóður verði af 1,1 milljarði króna í tekjum á ári með skattaafslætti sjómanna en hann nemur nú 987 krónum á dag.
Stjórn Eldingar minnir í ályktun sinni á fyrri tillögur félagsins um að veiðiheimildir í þorski miðist við 220 þúsund tonn. Ennfremur mótmælir stjórnin gífurlegum niðurskurði á ýsukvóta. Þá lýsir stjórnin mikilli ánægju með hvalveiðar og bendir á þá atvinnusköpun sem veiðarnar hafi haft, eins og dæmin frá Akranesi og víðar á Vesturlandi sanni. Loks hvetur stjórn Eldingar Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að finna viðunandi lausn á skráningu skötusels sem meðafla og minnir á að enn er engan skötuselskvóta að hafa.