4,6 milljarða viðbótarniðurskurður

mbl.is/Brynjar Gauti

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að borgaryfirvöld í Reykjavík ætli að ná 4,6 milljarða kr. viðbótarniðurskurði með því að skera niður rekstur grunnskólum, leikskólum, velferðarþjónustu, menninga og ferðamálum um tæp 6%.

Á móti komi að velferðarsvið fái hækkun vegna útgjalda sem sviðið stýri ekki, þ.e. aukinni fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum.

Umhverfismál, skipulags og framkvæmdasvið þurfi að skera niður um tæp 10%.

Til að auka tekjur borgarsjóðs sé lagt til að fyrirtæki borgarinnar skili auknum arðgreiðslum eða sem nemi 1.600 milljónum.

„Niðurskurður sem var framkvæmdur á þessu ári á að halda sér á næsta ári. Í því felst að kjör sem lækkuð voru tímabundið til næstu áramóta munu ekki hækka aftur einsog ráð var fyrir gert. Alls nam þessi niðurskurður 2,4 milljörðum. Heildarniðurskurður borgarinnar á næsta ári miðað við fjárhagsáætlun ársins 2008 verður því um 7 milljarðar króna,“ skrifar Dagur.

Minnihlutinn í borgarstjórn sat hjá við afgreiðslu málsins í dag og lét bóka eftirfarandi:

„Fulltrúar Samfylkingar og VG í borgarráði hafa ekki verið hafðir með í ráðum við mótun tillögu borgarstjóra að úthlutun fjárhagsramma til einstakra sviða og fyrirtækja borgarinnar. Setja verður sérstakan fyrirvara á raunhæfni fyrirliggjandi grunns að auknum niðurskurði, auknum arðgreiðslum og tímaramma við undirbúning fjárhagsáætlunar næsta árs. Enda liggur engin úttekt á raunhæfni fyrir, hvorki um arðgreiðslur né niðurskurð. Fulltrúar minnihlutans kölluðu eftir endurskoðun fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar þegar í sumarbyrjun. Í ljósi nýrrar þjóðhagsspár blasti þá við að augljóst var að milljarða niðurskurður væri framundan. Því var hafnað og meirihlutinn kaus að stinga höfðinu í sandinn. Það voru alvarleg mistök. Nú er skólaár og önnur starfsemi vetrarins þegar hafið og ljóst að einstök svið eru í afar þröngri stöðu til að ná settu marki, sérstaklega á þeim skamma tíma sem gefinn er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert