Fréttaskýring: Álag á sjúkrasjóði en úrræðin spretta upp

Starfsendurhæfingunni er líkt við trampólín. Í stað þess að fólk …
Starfsendurhæfingunni er líkt við trampólín. Í stað þess að fólk sem hættir vinnu vegna veikinda festist í öryggisnetinu, komi úrræðin þeim sem fyrst út í samfélagið á nýjan leik og til vinnu.

Kreppan leikur marga grátt ef marka má stóraukna þörf launafólks fyrir greiðslur úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaga. Dagpeningar úr sjúkrasjóði VR hækkuðu um 43% á fyrri árshelmingi.

Aðilar vinnumarkaðarins leita nú leiða til að bjóða fólki úrræði og aðstoð til að öðlast starfsgetu á ný. Sérstakur Starfsendurhæfingarsjóður sem settur var á laggirnar í tengslum við gerð kjarasamninga í fyrra er að komast í fullan gang. 14 sérhæfðir ráðgjafar eru að taka til starfa í haust og aðstoða þá einstaklinga sem þurfa á endurhæfingu að halda um allt land. Markmiðið er að auðvelda fólki að komast aftur inn á vinnumarkaðinn eftir að hafa sigrast á veikindum og sjúkdómum.

Festist ekki í öryggisnetinu

Að meðaltali þáðu um 220 félagar dagpeningagreiðslur úr sjúkrasjóði VR á fyrri helmingi þessa árs. Fjárhæðin vegna þessa var um 312 milljónir kr. Félagsmönnum sem fá dagpeninga hefur þó fjölgað hlutfallslega minna en sem nemur hækkun greiðslna eða um 17%. Dagpeningar eru tekjutengdir og greinilegt að tekjuhærra fólk leitar á náðir sjóðsins nú í meira mæli en áður.

Hjá VR bjuggu menn sig undir að greiðslur úr sjúkrasjóðnum myndu aukast verulega í kreppunni en aðsóknin var þó mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir að sögn Kristins Arnar Jóhannessonar, formanns VR. „Þegar menn detta út um tíma verða þeir óvirkir. Því lengur sem það stendur þeim mun meiri verða líkurnar á að þeir festist í því neti.

Hugmyndafræðin er sú að þetta sé öryggisnet sem menn festast ekki í, heldur má líkja því við trampólín sem kemur þeim út í samfélagið á nýjan leik og til vinnu.“

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingarsjóðs, hefur unnið að uppbyggingu hans og skipulagi sl. ár. „Ráðgjafarnir eru starfsmenn stéttarfélaganna en við búum til samstarfsnet ráðgjafa og þróum þetta starf faglega og veitum ráðgjöfunum allan þann stuðning sem þeir þurfa,“ segir hún. Sjóðurinn hefur einnig það verkefni að greiða kostnað af ráðgjöf ýmissa fagaðila um mótun einstaklingsbundinnar endurhæfingaráætlunar, s.s. lækna, sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa. Sjóðurinn greiðir kostnað við úrræði og endurhæfingu, sem ekki er veitt af almennri heilbrigðisþjónustu í landinu, til að auka vinnugetu fólks.

„Hugmyndin er sú að vinna með atvinnulífinu, virkja trúnaðarmenn í fyrirtækjum og vinna með stjórnendum í að benda fólki á að leita til ráðgjafa um leið og það sér fram á að það verður fjarverandi um einhvern tíma frá vinnu. Því fyrr sem við getum aðstoðað fólk þeim mun minni líkur eru á að það lendi í langvarandi fjarvistum frá vinnu.“ Eitt verkefni sjóðsins í haust er að fara inn á allar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu og kynna þetta þar og koma á samvinnu við heilsugæsluna. Á næsta ári mun þessi sama þjónusta standa örorkulífeyrisþegum lífeyrissjóðanna til boða.

Alvarleg aukning

Margir leita á náðir sjúkrasjóða stéttarfélaganna vegna stoðkerfissjúkdóma og hafa greiðslur dagpeninga til félagsmanna í VR af þeim sökum hækkað um 86% á fyrri hluta þessa árs frá sama tíma í fyrra. Þá hefur þeim sem greinast með geðraskanir fjölgað um 21%. 20% vöxtur er vegna hjarta- og æðasjúkdóma og 38% vegna krabbameins. Aukningin vegna sjúkdóma í kviðarholi og meltingarfærum er 66%. Hins vegar hefur þeim fækkað verulega sem leita til sjúkrasjóðs VR vegna meðgöngu- og þvagfæra- og móðurlífssjúkdóma.

Svipaða sögu af þessari auknu ásókn er að segja hjá öðrum stéttarfélögum. Sprenging varð sl. vetur hjá sjúkrasjóði Eflingar stéttarfélags þar sem aukningin varð um 50% skv. upplýsingum félagsins. Dregið hefur úr ásókninni frá í vor.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert