Hollensk og bresk stjórnvöld leggjast gegn ákvæði Íslendinga í fyrirvaranum að Icesave-samkomulaginu um að ríkisábyrgð á endurgreiðslum þess fjár sem tapaðist í bankahruninu renni út í júní 2024, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni í fjárlaganefnd Alþingis.
Haft er eftir heimildarmanninum að bresk og hollensk stjórnvöld séu einhuga um að ábyrgðin gildi eftir 2024 en Reuters-fréttastofan hefur ekki fengið þetta staðfest hjá talsmönnum þeirra.
Segir jafnframt í fréttinni að fjárlaganefnd hafi borist óformleg viðbrögð ríkisstjórna landanna tveggja við fyrirvörunum en talsmenn þeirra vilja að trúnaðar verði gætt í samningaferlinu.