Tugmilljarðasamningar um hitaveitu í Ungverjalandi

Frá borstað í Szentlörinc.
Frá borstað í Szentlörinc.

Jarðboranir Mannvits í Ungverjalandi hafa skilað góðum árangri en á dögunum var lokið við borun fyrstu holunnar í bænum Szentlörinc í suðvesturhluta Ungverjalands.

Undanfarin þrjú ár hefur verkfræðistofan Mannvit unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði jarðfræði og jarðeðlisfræði vegna jarðhitanýtingar í Ungverjalandi.

Verkefnin eru unnin fyrir ungverska einkafyrirtækið PannErgy sem áætlar framleiðslu á grænni orku til húshitunar á a.m.k. 70.000 heimilum víðs vegar í Ungverjalandi og hefur í því sambandi gert samstarfssamning við um 30 sveitarfélög og stofnað með þeim sameiginleg félög um rekstur hitaveitna. Að auki er stefnt að framleiðslu rafmagns með jarðvarma. Áætlaðar heildarfjárfestingar PannErgy á þessu sviði nema á bilinu 350 til 500 milljóna evra eða sem nemur 64 til 90 milljörðum íslenskra króna.

Bora 50-70 holur í Ungverjalandi

Lokið var við að bora fyrstu holuna í bænum Szentlörinc í suðvesturhluta Ungverjalands í síðustu viku. Holan er 1.820 metra djúp og fyrstu prófanir og mælingar á eiginleikum borholunnar gefa til kynna góðan árangur. Í loftdælingu sem staðið hefur undanfarna viku gefur borholan um 20 sekúndulítra af tæplega 90 gráðu heitu vatni, en 5-10 sekúndulítra sjálfrennsli er úr holunni. Frekari prófanir og greiningar á efnainnihaldi vatnsins standa yfir. Vatnið verður nýtt til húshitunar í Szentlörinc. Alls verða boraðar á bilinu 50-70 holur víðsvegar um Ungverjaland.

Byggt áralangri reynslu Íslendinga

Að sögn Sigurðar Lárusar Hólm, verkefnisstjóra á skrifstofu Mannvits í Búdapest (Mannvit kft.), er þetta í fyrsta skipti sem borað er niður í jarðlög á tveggja kílómetra dýpi í Ungverjalandi, þar sem markmiðið er að vinna heitt vatn til húshitunar. Það sem er sérstakt við þá hugmyndafræði sem liggur að baki boruninni er að borað er beint ofan í stórt sprungukerfi. Þannig er nú verið að innleiða í Ungverjalandi aðferðir við jarðhitavinnslu sem hafa þekkst í áratugi á Íslandi. Hér er því byggt á langri reynslu Íslendinga í nýtingu jarðhita.

Sigurður Lárus segir þetta vera í fyrsta skipti sem íslenskur aðili tekur að sér einskonar alverktöku varðandi nýtingu jarðhita á erlendri grundu, en Mannvit hefur annast allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir, fyrst á stórum svæðum sem tóku nánast til alls Ungverjalands og síðan nákvæmari rannsóknir á minni svæðum m.t.t staðsetningar á borholum. Þá hefur Mannvit séð um allan borundirbúning, þar með talið hönnun á borholum, og síðan sjálfa borframkvæmdina og eftirlit með henni. Mannvit mun einnig sjá um hönnun hitaveitunnar og hafa umsjón með framkvæmd þess hluta verksins. Borverktaki er ungverska fyrirtækið Aquaplus.

Á annan tug starfsmanna ytra

Á síðasta ári opnaði Mannvit skrifstofu í Búdapest til að fylgja eftir verkefnum í Mið-Evrópu. Þar eru nú vel á annan tug starfsmanna, bæði íslenskir og ungverskir. Í Ungverjalandi er hefð fyrir nýtingu jarðhita, sérstaklega í tengslum við hverskonar heilsurækt. Þekking á jarðborunum er mikil í landinu vegna vatnsöflunar en þó einkum í tengslum við leit að olíu og gasi.

„Því fer vel á því að Mannvit tvinni saman reynslu heimamanna af staðháttum og sérþekkingu Mannvits á jarðvarmaverkefnum á Íslandi og víðar til að byggja upp miðstöð fyrir starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Verkefni Mannvits í Ungverjalandi tengjast mest nýtingu jarðvarma en félagið hefur einnig tekið að sér verkefni á fleiri sviðum,“ segir Sigurður Lárus Hólm.

Auk þess að sinna verkefnum í Ungverjalandi er skrifstofa Mannvits í Búdapest vel í sveit sett hvað varðar verkefni í öðrum löndum Evrópu. Þaðan þjónustar Mannvit Evrópu með verkefnum í Þýskalandi, Slóvakíu, Slóveníu, Bosníu-Hersegóvínu, Rúmeníu, Grikklandi og Tyrklandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert