Fjölmenni var á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna í Iðnó í kvöld. Þorvaldur Þorvaldsson sem sæti á í stjórn samtakanna fjallaði þar um fyrirhugað greiðsluverkfall í októberbyrjun og sagði skýrt samkvæmt lögum að gengistryggðu lánin verið ólögleg.
Þorvaldur sagði óraunsætt af stjórnvöldum og fjármálastofnunum að hundsa verkföllin. Hann segir slíkar aðgerðir á fyrri tíð hafa skilað ýmsum réttindum og kjarabótum sem nú standi til að skera niður.
„Það stefnir í að um næstu áramót hafi næstum þriðjungur þjóðarinnar neikvæða eiginfjárstöðu og á næsta ári gæti það nálgast helming. Þegar hálf þjóðin er komin í greiðsluaðlögun og fær skammtað 70 þúsund krónum á mánuði til að lifa af, hvernig á hún þá að standa undir Icesave-skuldunum og öðrum ríkisskuldum sem halda áfram að aukast. Og hvernig á þjóðin þá að sjá einhverja ástæðu til að halda áfram að vinna? Hvernig á þá að verja velferðarkerfið og auðlindir þjóðarinnar. Verður það þá sett á brunaútsölu einn daginn til að eiga fyrir næstu afborgun eða endurfjármögnun," sagði Þorvaldur
Aldís Baldvinsdóttir var ekki síður kjarnyrt en Þorvaldur.
„Eigum við að ganga með betlistaf í hendi í hús bankaböðlanna sem rændu okkur aleigunni til að biðja þá um að ræna okkur ekki lífsbjörginni líka? Eigum við að sæta þeim nauðungakostum - eins og með lánin - að annað hvort taka þeirra afarkostum eða gerast gjaldþrota ella? Nei, segi ég,“ sagði Aldís sem telur slíkt vera nauðungarsætt
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra var sat fyrir svörum á fundinum í kvöld. Þar sagði hann að í undirbúningi væru aðgerðir sem taka ættu á vanda heimilanna og yrðu þær kynntar fyrir mánaðamót. Hann sagði þó ljóst að þær leystu ekki allan þann vanda sem skuldsett heimili landsins þurfa að kljást við.