Stjórn AFLs Starfsgreinafélags lýsir áhyggjum af framgangi stöðugleikasáttmálans og bendir á að atvinnulífið stefnir í stöðvun á næstu mánuðum verði ekki eitthvað að gert.
Þá lýsir stjórn AFLs áhyggjum af því að við sparnaðaraðgerðir í heilbrigðiskerfi virðist enn stuðst við gamlar og úr sér gengnar aðferðir frjálshyggjunnar. Stjórnin spyr hvort einkavæðing og útboð á þjónustu á spítölum séu svör ríkisstjórnarinnar við núverandi aðstæðum.
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags, samþykkti í gærkvöld ályktun þar sem útboð á þjónustu og uppsagnir á starfsfólki ríkisstofnana til þess eins að einkavæða störf þeirra, eru gagnrýnd.
Stjórnin lýsir furðu á því að stjórnvöld telji sig ná sparnaði með því að fela einkaaðilum rekstur mötuneytis Landsspítalans og um leið segi upp starfsfólki sem unnið hefur spítalanum af trúmennsku um langt árabil. Í ályktuninni segir að sparnaði annars staðar hafi verið náð m.a. með því að minnka starfshlutfall lægst launaða starfsfólks heilbrigðiskerfisins án þess að vinna minnki í raun og þannig séu byrðarnar settar á þá sem minnst mega við launaskerðingum.
„AFL Starfsgreinafélag hvetur stjórnvöld til að kasta aðferðum frjálshyggjunnar og taka upp félagshyggju og mannvænar aðferðir við lausn á aðsteðjandi vanda. Samfélagið allt krefst nýrra lausna og að snúið sé frá óheftri peningahyggju og markaðssjónarmiðum. Það er dapurt að heilbrigðisráðherra gangi á undan í einkavæðingu og uppsögnum starfsfólks til að bjóða út þjónustu,“ segir í ályktun stjórnar AFLs.
Þá ítrekar félagið fyrri ályktanir sínar um að sátt verði að nást í málefnum skuldsettra heimila og það megi ekki dragast mikið lengur. Loks krefst stjórn AFLs þess að uppgjör bankahruns og rannsóknir á meintum efnahagsbrotum verði fyrir opnum tjöldum og að þeir sem ábyrgð báru á fádæma fúski í eftirliti og vafasömum viðskiptaháttum, verði dregnir til ábyrgðar.