Vilja skýra ákvæði um lok ábyrgðar

Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar. mbl.is

„Menn eru sammála um að ef fullnaðarafgreiðsla málsins kallar á breytingar á þeim fyrirvörum sem Alþingi setti þá verði það ekki gert nema af Alþingi sjálfu,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Nefndin hittist kl. 8 í morgun til að ræða viðbrögð Breta og Hollendinga. 

Árni sagði að þess hafi verið óskað seint í gærkvöldi að utanríkismálanefnd yrði kölluð saman til að ræða viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörunum sem Alþingi setti við ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna.

Á fundinn komu Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Á fundinum var farið yfir viðbrögð Breta og Hollendinga og annað sem gerst hefur frá því að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðarlögin. Árni var spurður hvort hann telji að einhver atriði séu svo veigamikil að taka þurfi málið upp aftur á Alþingi?

„Það fer alveg eftir því hvað menn hyggjast gera. Ef það er niðurstaðan að þessi viðbrögð þeirra og samskipi í framhaldinu þýði að þeir fari fram á breytingar á afgreiðslu Alþingis með lögunum, þá náttúrulega kallar það á aðkomu Alþingis. En þetta eru bara óformlegar þreifingar,“ sagði Árni Þór.

Hann sagði að í ríkisábyrgðarlögunum sé gert ráð fyrir því að samþykkis Breta og Hollendinga sé aflað við fyrirvörunum sem settir voru. Þeir hafi skoðað ríkisábyrgðarlögin mjög ítarlega og séu nú að bregðast við. Árni Þór sagði að í raun og veru fallist þeir á fyrirvarana sem settir voru.

„ En það er eitt atriði, eins og komið hefur fram sem varðar árið 2024 - hvað gerist þá, sem auðvitað er svolítið óljóst og er svolítið skilið eftir opið í lögunum sjálfum. Þar segir að ríkisábyrgðin gildi til 5. júní 2024 en fari svo að eitthvað verði ógreitt af láninu á þeim tíma, sem gerist ekki nema efnahagsþróunin verði erfiðari en spár gera ráð fyrir, eigi að taka upp viðræður milli aðila um meðferð eftirstöðvanna,“ sagði Árni Þór.

„Þeir eru í raun og veru að spyrja: Getum við lokið því máli með tilteknum hætti? Það er auðvitað hlutur sem við verðum að taka afstöðu til. Það segir meira að segja í lögunum að ef stefnir í að eitthvað verði ógreitt á þessum tíma [5.6.2024] þá eigi tímanlega að taka upp viðræður milli aðila um meðferð þess. Þeir eru að þreifa fyrir sér hvort hægt er að ganga frá því núna og með hvaða hætti það yrði gert. Til dæmis með því að lánstíminn yrði þá lengdur. Þetta þurfum við að meta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert