„Ég sé á vefsíðum, að mitt nafn er nefnt, þegar menn geta sér til um nýjan ritstjóra Morgunblaðsins. Þær vangaveltur eiga ekki við neitt að styðjast,“ skrifar Björn Bjarnason á vefsíðu sína í kvöld. Hann segir að Morgunblaðið hafi gengið of langt í baráttunni fyrir ESB-aðild Íslands undir ritstjórn Ólafs Stephensen.
Björn Bjarnason ritar á vefsíðu sinni í kvöld, pistil um brotthvarf Ólafs Stephensen úr stóli ritstjóra á Morgunblaðinu.
Hann segir ritstjóratíð Ólafs óvenju skamma eða rétt rúmt ár. Á Morgunblaðinu hafi menn setið svo áratugum skiptir og nefnir þá Valtý Stefánsson, Matthías Johannessen og Styrmi Gunnarsson.
„Við ritstjóraskiptin 2. júní 2008, þegar Styrmir hætti, hafði ég á orði, að breytingin yrði líklega mest í stefnu ritstjóra í Evrópumálum. Það reyndist rétt, því að í þeim efnum varð kúvending hjá Morgunblaðinu við ritstjóraskiptin. Ólafur Þ. Stephensen er einn ákafasti ESB-aðildarsinni landsins og var fyrsti formaður Evrópusamtakanna (ESB), sem vinna að aðild Íslands að ESB. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni, að mér þætti blaðið ganga of langt í baráttunni fyrir ESB-aðild Íslands undir ritstjórn Ólafs. Segja má, að í því efni hafi Ólafur fetað í fótspor Aftenposten í Noregi, sem er borgaralegt ESB-aðildarsinnað blað, en hefur ekki haft erindi sem erfiði með boðskap sinn. Eftir að alþingi samþykkti, að gengið skyldi til ESB-aðildarviðræðna, og ESB-fjölmiðlarnir náðu því takmarki sínu, hefur andúð almennings á aðild aukist,“ skrifar Björn Bjarnason.