„Ég held að óhætt sé að fullyrða að fjárhagsstaðan sé hlutfallslega hvergi verri en hjá bæjarsjóði Álftaness. Skuldir og skuldbindingar nema á sjötta milljarði króna eða sex- til sjöföldum árstekjum. Við erum í raun tæknilega gjaldþrota. Fjárhagsástand bæjarsjóðs er með þeim hætti að við þurfum á gjörgæslu eftirlitsnefndarinnar að halda. Ég segi að við eigum að hafa frumkvæði að slíkri íhlutun nefndarinnar,“ segir Guðmundur G. Gunnarsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Álftaness.
Bæjarráð Álftaness vísaði í gær frá tillögu hans þess efnis að nú þegar verði leitað til eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga.
Skuldirnar hlaðast upp
Bæjarráð ræddi m.a. fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á miklum átakafundi sem stóð í hálfa sjöttu klukkustund í gær. Fjármálastjóri bæjarins gerði grein fyrir stöðunni og myndin sem dregin var upp af stöðunni er vægast sagt dökk. Skuldirnar nema nú að minnsta kosti sex milljörðum króna og lausafjárstaða sveitarfélagsins er mjög erfið.
Um 2.500 manns búa í sveitarfélaginu. Samkvæmt ársreikningi síðasta árs var sveitarfélagið rekið með 832 milljóna króna halla en veltan var 1.160 milljónir króna. Áætlanir gerðu ráð fyrir tæplega 300 milljóna króna halla. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2008 var neikvætt um 126 milljónir króna samkvæmt efnahagsreikningi. Og staðan hefur síður en svo skánað.
Fastar skuldir eru nú um 2.500 milljónir króna. Skuldbindingar vegna 30 ára leigusamnings við Eignarhaldsfélagið Fasteign vegna nýrrar sundlaugar sem félagið byggði en sveitarfélagið leigir, nema nú 2.500 milljónum króna. Að auki var sveitarfélagið í júní og júlí á þessu ári, skuldbundið fyrir hátt í einn milljarð króna, vegna framkvæmda á svokölluðu miðsvæði í sveitarfélaginu og leiguskuldbindinga. Þá er viðbúið að tekjur dragast saman frá fyrra ári, verða um eða innan við einn milljarður króna. Greiðslustaðan versnar því enn.
Ávirðingar um ranga upplýsingagjöf
Í bókun Margrétar Jónsdóttur, óháðs bæjarfulltrúa og formanns bæjarráðs segir að minnisblað ásamt sjóðstreymisáætlun sem lagt var fram á fundi bæjarráðs 27. ágúst sl. hafi augljóslega ekki gefið rétta mynd af stöðu bæjarsjóðs.
„Ámælisvert er að slíkar upplýsingar skuli hafa verið lagðar fram fyrir nokkrum dögum sem reyndust ekki réttar. Staða bæjarsjóðs er mjög slæm og það er mjög mikilvægt fyrir alla bæjarfulltrúa að hafa réttar upplýsingar í höndum til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um fjárhag sveitarfélagsins,“ segir í bókun Margrétar.
Undir hana tók oddviti sjálfstæðimanna.
Sigurður Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Á-lista mótmælti því sem hann kallaði aðdróttanir fyrrverandi félaga síns í Á-listanum. Sigurður sagði fjárstreymisáætlanir unnar af fjármálastjóra og staða í rekstri og fjármálum sveitarfélagsins ætti ekki að koma á óvart.
Hátt í 30 bókanir eru færðar í fundargerð bæjarráðsfundarins. Flestar um fjárhagsstöðuna og endurspegla bókanirnar þau harkalegu og persónulegu átök sem verið hafa í bæjarstjórn Álftaness undanfarin misseri.
Vill undir Eftirlitsnefnd
Starfandi bæjarstjóri skýrði frá því á fundi bæjarráðs í gær að hann hefði ásamt fjármálastjóra Álftanesbæjar, þingað með starfsmanni Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og skrifstofustjóra sveitarstjórnarskrifstofu Samgönguráðuneytisins.
Oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn lagði í gær fram tillögu þess efnis að í ljósi mjög erfiðrar stöðu bæjarsjóðs, verði nú þegar leitað eftir fundi bæjarstjórnar með Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga. Markmið fundarins yrði að fá ráðgjöf um leiðir í erfiðri stöðu. Tillögunni var vísað frá með atkvæðum Margrétar Jónsdóttur, óháðs bæjarfulltrúa og formanns bæjarráðs og Sigurðar Magnússonar bæjarfulltrúa Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóra.
„Ég var mjög óhress með að formaður bæjarráðs skyldi ekki greiða atkvæði með tillögunni. Ég vil meina að við séum komin á gjörgæslustig, það á bara eftir að koma og tilkynna okkur það. Við eigum að hafa frumkvæðið, það þarf að taka af okkur fjárráðin. Við ráðum einfaldlega ekki við þetta og þurfum á aðstoð að halda,“ segir Guðmundur G. Gunnarsson, oddviti sjálfstæðismanna.
Samkvæmt 12. grein reglugerðar um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga ber sveitarstjórn að gera nefndinni viðvart ef sveitarfélag kemst í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum. Ákvörðun um slíka tilkynningu til eftirlitsnefndarinnar á að taka eftir tvær umræður í sveitarstjórn.