Halda enn í vonina

Bogdan Cristel

Íslensk stjórnvöld vonast til þess að endurskoðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fari fram í þessum mánuði, samkvæmt  frétt Bloomberg í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá AGS eru ekki miklar líkur á svo verði enda verður ársfundur sjóðsins haldinn síðar í mánuðinum og Ísland hefur ekki verið sett á dagskrá framkvæmdastjórnar AGS.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í viðtali við Bloomberg að enn ríki bjartsýni um að það takist þrátt fyrir að tæknilega sé það ekki líklegt. Í gær greindu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur fyrir formönnum stjórnmálaflokkanna hugmyndir Breta og Hollendinga varðandi fyrirvara sem gerðir voru við Icesave-samkomulagið af Alþingi Íslands.

Ef framkvæmdastjórn AGS tekur málefni Íslands ekki fyrir þann 25. september verður Ísland ekki á dagskrá framkvæmdastjórnarinn fyrr en í annarri viku októbermánaðar, að sögn Steingríms.

Það kemur í ljós í dag eða um helgina hvort framkvæmdastjórnin mun eða mun ekki taka áætlunina fyrir í september, að sögn Steingríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert