Ólafur kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins

Ólafur kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins síðdegis.
Ólafur kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins síðdegis. mbl.is/Golli

Ólafur Þ. Stephensen kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins á starfsmannafundi síðdegis en fyrr í dag varð að samkomulagi  hans og  eigenda Árvakurs hf. að hann léti af störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins. Fram kom að það væri vegna mismunandi áherslna varðandi ritstjórn og rekstur  blaðsins. 

Ólafur sagði, þegar hann ávarpaði starfsmenn, að hann ætlaði ekki að halda því fram að þessi niðurstaða væri sér að skapi. En hann og Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, hefðu átt um þessi efni hreinskiptin og heiðarleg samskipti allan tímann og vitað hvar þeir höfðu hvor annan.

„Það er mikið um það rætt hvernig eigendur fjölmiðla beiti valdi sínu. Ég tel að þeir eigi að gera það með þeim hætti, sem eigendur Árvakurs hafa gert. Þeir ráða ritstjórann og þeir geta látið hann fara. Það eru hreinlegri stjórnarhættir en að eigendurnir hafi afskipti af daglegum rekstri ritstjórnarinnar," sagði Ólafur.

Ólafur tók við ritstjórn Morgunblaðsins í júní á síðasta ári. Hann sagðist vera stoltur af þeim árangri, sem blaðið hefði náð við erfiðar aðstæður í samfélaginu og á fjömmiðlamarkaðnum.

„Ég er stoltur af því hvernig ritstjórn Morgunblaðsins hefur staðið sig undanfarið ár, eftir að íslenskt samfélag fór á annan endann í bankahruninu. Ég tel að við höfum staðið okkar plikt sem óháður og gagnrýninn fjölmiðill, veitt almenningi þær bestu upplýsingar sem við gátum og sýnt bæði stjórnvöldum og viðskiptalífinu strangt aðhald. Við höfum engum hlíft í þeirri umfjöllun okkar, ekki einstökum stjórnmálaöflum eða valdamönnum, ekki einstökum fyrirtækjum eða samsteypum, ekki vinum okkar, ekki einu sinni eigendum okkar á hverjum tíma. Þannig á sjálfstæð ritstjórn að starfa," sagði Ólafur.

Hann sagðist síðan vera sannfærður um að Árvakur, Morgunblaðið, mbl.is og hvaða aðrir miðlar, sem kunni að verða stofnaðir á vegum þessa fyrirtækis, eigi sér bjarta framtíð vegna þess að þar starfi þrautþjálfað fólk, sem sé í stakk búið til að takast á við hvaða verkefni sem er og hvaða samkeppni sem er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert