„Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi verið nokkuð ólíkar áherslur hjá nefndarmönnum. En menn eru auðvitað að meta þetta og hvaða viðbrögð séu skynsamlegust,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar alþingis, en nefndin kom saman til fundar í morgun.
Á fundinum var farið yfir óformleg viðbrögð Breta og Hollendinga við þeim efnahagslegu fyrirvörum sem fram koma í Icesave-samkomulaginu. Á fundinn mættu jafnframt fulltrúar frá Seðlabanka Íslands og forsætis- og fjármálaráðuneytinu.
Helgi segir að fundurinn hafi fyrst og fremst verið í upplýsingaskyni fyrir nefndina. Nefndarmenn hafi farið almennt yfir viðbrögð breskra og hollenskra stjórnvalda og leggja mat á þætti sem varða verksvið nefndarinnar. Viðbrögðin séu enn bundin trúnaði og því erfitt að tjá sig nokkuð um þau.
„Ég held að það sé mjög jákvætt að þær þingnefndir sem voru að vinna að málinu séu strax upplýstar um framgang þess, þannig að nefndirnar hafi tækifæri til þess að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.