Skemmdarvargurinn – eða hópur skemmdavarga – sem kallar sig Skap ofsa gengur enn laus. Lögregla hefur yfirheyrt nokkra einstaklinga sem gætu tengst málinu en gefur ekki upp hvort einhver þeirra sé með stöðu grunaðs.
Í kjölfar árása á eignir umsvifamikilla kaupsýslumanna með málningu sendir viðkomandi oftast nær ljósmyndir á fjölmiðla en með þeim vekur hann athygli á athæfi sínu. Því hafa vaknað upp spurningar um hvort ekki sé hægt að rekja slóð hins ófyrirlitna Skap ofsa í gegnum tölvubréfin.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur sú leið verið skoðuð en árangur þeirrar skoðunar verður ekki gefinn upp. Þar fyrir utan var afar litlar sem engar upplýsingar að fá um framgang málsins hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Friðrik Skúlason tölvusérfræðingur segir vissulega hægt að rekja tölvubréfasendingarnar en leiðin sé torfær. Að öllum líkindum þurfi að reyna að fá upplýsingar frá bandaríska tölvufyrirtækinu Google en Skap ofsi er með póstfang þaðan, þ.e. gmail. Til þess að fá upplýsingar frá Google þarf dómsúrskurð fyrir bandarískum dómstól og því þurfi að fara í gegnum bandarísk lögregluyfirvöld, líklegast alríkislögregluna, FBI.