Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 43,9% í könnun sem MMR hefur gert á fylgi flokkanna og stuðningi við ríkisstjórnina. Er þetta viðsnúningur frá því í apríl 2009 þegar 51,5% sögðust styðja þáverandi ríkisstjórn sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig tæpum 8% frá síðustu kosningum og mælist nú stærsti stjórnmálaflokkurinn á þingi, en 31,6% segjast myndu kjósa flokkinn væri gengið til kosninga í dag.
Fylgi Samfylkingarinnar dalar aftur á móti nokkuð og mælist nú 24,1% en var 29,8% við síðustu kosningar. Fylgi Vinstri grænna mælist 19,8, fylgi Framsóknarflokksins mælist 16,6% og Borgarahreyfingin mælist með 3,1% fylgi. 4,8% segjast myndu kjósa aðra flokka, að því er segir í fréttatilkynningu frá MMR.
Andstaða við ríkistjórnina mælist nú svipuð (56,1%) og mældist við ríkisstjórn Geirs H. Haarde í október strax eftir bankahrun (54,8%).