Trúverðugleiki og heilindi að leiðarljósi

„Persónulega tel ég mig hafa  í störfum mínum staðið vörð um þau grundvallargildi sem bæði ég og sú hreyfing sem ég hef helgað starfskrafta mína síðustu 20 árin standa fyrir en þau eru trúverðugleiki og heilindi gagnvart félagsmönnum og samfélaginu í heild,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.

Tilefnið er umfjöllun fjölmiðla um tengsl Gylfa við félag í Lúxemborg sem stofnað var í gegnum tvö skúffufélög á Tortola og áskorun Ágústs Guðbjartssonar, stjórnarmanns í VR, um afsögn Gylfa sem forseti ASÍ.

Í yfirlýsingunni segist Gylfi ekki hafa komið fram með ósiðlegum eða ótrúverðugum hætti í málinu.

„Það að stofna fyrirtæki í Lúxemborg með það afmarkaða og skilgreinda hlutverk að tryggja ákveðið jafnræði gagnvart starfsmönnum m.v. þær skattareglur sem giltu í þeirra heimalandi hefði ég haldið að væri fremur til eftirbreytni en bera vott um siðleysi,“ segir í yfirlýsingu forseta ASÍ.

Hann segir ennfremur að á síðustu mánuðum hafi það hins vegar komið í ljós að ótrúlega margir hafi lagt sig fram um að stofna félög í skattaparadísum til að fela tekjur sína og eignir. Nú hafi einnig komið í ljós að Kaupþing virðist hafa átt til á lager fyrirtæki í Lúxemborg, sem hann hafði stofnað í gegnum einhverja lögfræði- eða endurskoðunarskrifstofu eða skúffufyrirtæki – á eyjunni Tortola og selt þau bæði þeim sem fóru í einu og öllu að lögum og reglum fyrir opnum tjöldum og þeim sem vildu fela slóð sína.

„Um þetta verklag bankans hafði hvorki ég né aðrir stjórnarmenn Hugvits neina vitneskju um og getum ekki verið ábyrgir fyrir,“ segir forseti ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert