Uppskeran vægast sagt mjög misjöfn

Kartöfluuppskera í Þykkvabænum er vel á veg komin. Uppskerubrestur var fyrirsjáanlegur vegna næturfrosta í júlí og því hefur verið óvenju vel fylgst með uppskerustörfum í þessu mikilvægasta kartöfluræktarhéraði landsins.

Komið hefur í ljós að uppskera er feikilega misjöfn milli garða í Þykkvabænum, að sögn Sigurbjarts Pálssonar, kartöflubónda í Skarði. Hann segir að bændur hafi mest verið að fá 50% af meðaluppskeru en sumir garðar hafi verið alveg ónýtir, svo að ekki hafi tekið því að setja á þá vélar. „Þetta hefur verið frá núllinu upp í 50% og allt þar á milli,“ segir Sigurbjartur.

Hann segir að það veki athygli hvernig næturfrostið hafi farið með garðana. Skemmdirnar á kartöflugrösunum hafi ekki verið svæðaskiptar eins og ætla mætti heldur sé það tilviljanakennt hvernig grösin hafi fallið. Nefnir Sigurbjartur sem dæmi, að í hans landi hafi einn akur gefið 50% uppskeru en annar verið ónýtur. Þó standi þeir hlið við hlið og aðeins skurður á milli. „Frostið er ákaflega lúmkst. Kuldinn kemur niður af hálendinu og kemur misjafnlega niður á görðunum,“ segir hann.

 Sigurbjartur segir að staðan sé best í þeim görðum þar sem einhver blöð hafi verið lifandi á plöntunni. Þar haldi kartöflurnar áfram að vaxa.

Enn séu hlýindi í lofti og margir bíði með að taka upp meðan svo er. Hins vegar geti allt gerst í veðráttunni. „Þess vegna gæti byrjað að snjóa í næstu viku eða tekið við rigningartíð, sem gæti gert okkur bændum erfitt fyrir,“ segir Sigurbjartur.

Bergvin Jóhannsson, kartöflubóndi á Áshóli í Eyjafirði og formaður Landssambands kartöflubænda, segir að uppskeran í Eyjafirði verði í góðu meðallagi. Þá liggi fyrir að uppskera hjá bændum í Hornafirði verði mjög góð. Hann reiknar með að bændur eigi almennt eftir að taka upp kartöflur í 10 daga í viðbót. Þegar öll uppskeran verður komin í hús geti menn áætlað hve lengi innlenda framleiðslan dugi neytendum, en það verði eitthvað fram yfir áramót. Miklu skipti hve uppskeran hafi tekist vel á öðrum svæðum en Þykkvabænum.

Fram hefur komið í fréttum að áhugi almennings á ræktun matjurta hefur stóraukist í kreppunni og líklega hafa aldrei fleiri ræktað kartöflur en einmitt í sumar. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, kveðst ekki vita nákvæmlega um umfang þeirrar ræktunar og segist ekki vita til þess að neinn haldi til haga tölum um uppskeru í görðum almennings og skólagörðum.

„Garðyrkjubændur fagna þessum aukna áhuga á garðrækt og telja að hann ýti undir neyslu á grænmeti,“ segir Bjarni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert