Persónuvernd úrskurðaði í dag að vinnsla IT ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu sé ekki leyfisskyld, miðað við þær upplýsingar sem koma fram um vinnsluna í umsókn fyrirtækisins. Því sé ekki gerð athugasemd við vinnslu upplýsinganna. Hvað varði fyrirtækjaskrá falli það í hlut Ríkisskattstjóra að úrskurða um aðgang að þeim upplýsingum.
Það kom fram í fréttum RÚV fyrr í vikunni að Ríkisskattstjóri lokaði á aðgang Jóns Jóseps Bjarnasonar, forsvarsmanns IT ráðgjafar, að upplýsingum um fyrirtækjaskrá. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sendi frá sér tilkynningu þar sem kom fram að IT hafi ekki haft starfsleyfi frá Persónuvernd þegar gerður var samningur um miðlun upplýsinga úr hlutafélagaskrá. Lokað hafi verið fyrir aðgang IT ráðgjafar þegar það hafi komið í ljós.
Þá hafi ekki verið hægt að sjá annað en að forráðamaðurinn hafi sem fyrrum starfsmaður ríkisskattstjóra nýtt sér upplýsingar án heimildar og sá þáttur sé nú til meðferðar. Mikilvægt sé að upplýsingagjöf til almennings rúmist innan ramma laga og persónuverndar.
IT ráðgjöf hefur unnið að því að kanna tengsl einstaklinga og fyrirtækja og samkvæmt úrskurði Persónuverndar falla stjórnarmenn og trúnaðarmenn í félögum ekki undir skilgreiningu á viðkvæmum persónuupplýsingum.