Auglýsir eftir húsnæði undir fangelsi

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið auglýsir í dag eftir hentugu leiguhúsnæði undir fangelsi fyrri 16 til 26 einstaklinga.

Biðlisti afplánunarfanga hefur lengst umtalsvert að undanförnu og bíða nú á þriðja hundrað brotamenn eftir afplánun. Fangelsi landsins eru yfirfull og hafa fangar ekki verið boðaðir til afplánunar í margar vikur.

Í vikunni sagði dómsmálaráðherra að staðan væri óviðunandi og við henni þyrfti að bregðast strax. Og það hefur ráðherra gert. Í dag birtist dagblaðaauglýsing þar sem ráðuneytið óskar eftir að taka á leigu húsnæði til tveggja ára, með möguleika á framlengingu, undir fangelsi.

Gerð er krafa um að húsnæðið sé utan þéttbýli en þó það nálægt Litla-Hrauni að samnýta megi þjónustu við fangelsið. Húsnæðið skal rýma 16-26 einstaklinga í einstaklings- og/eða tveggja manna herbergjum.

Svarfrestur er skammur eða til 29. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka