Icelandair dregur til baka uppsagnir 24 flugmanna

Icelandair hefur í þessum mánuði dregið til baka uppsagnir alls 24 flugmanna félagsins vegna aukinna verkefna í vetur. Jafnframt munu níu flugstjórar, sem stóð til að flyttust í sæti flugmanns, halda stöðum sínum.

„Það er sem kunnugt er mikil árstíðasveifla í flug- og ferðastarfseminni, og mun fleiri störf í boði yfir háannatímann á sumrin en í lágönn vetrarins. Þess vegna er jafnan ráðinn inn hópur flugmanna að vori og sagt upp að hausti,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins.

Guðjón segir að nú bregði svo við að fyrirsjáanleg séu aukin verkefni í flugrekstri Icelandair í vetur og því þörf fyrir starfskrafta flugmanna mun meiri en áður var áætlað.

„Bókanir í áætlunarflugi í haust eru betri en á horfðist og samið hefur verið um aukið fraktflug og leiguflug á vegum Icelandair,“ segir hann.

Rúmlega 200 flugmenn verða starfandi hjá Icelandair í vetur en voru um 240 þegar mest var á þessu sumri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert