Norski fjárfestirinn Endre Røsjø og MP Banki hf. hafa náð samkomulagi um að Røsjø eignist hlut í bankanum að loknum fyrirhuguðum hluthafafundi í næsta mánuði og verði þar með virkur hluthafi við framtíðarþróun bankans. Þetta var tilkynnt í gærkvöldi.
Að sögn Margeirs Péturssonar, stofnanda og stjórnarformanns MP Banka, mun Røsjø leggja fram jafnvirði 1.400 milljóna íslenskra króna í nýju hlutafé og verða næststærsti hluthafi bankans á eftir Margeiri. Að hans sögn mun enginn núverandi hluthafa selja hlutafé í bankanum. Margeir segist vera mjög ánægður með ákvörðun Røsjø og hún muni styrkja bankann.
„Stjórn MP Banka og stærstu hluthafar átta sig vel á því að ef MP Banki vill verða í leiðandi stöðu á markaðnum þarf bankinn að vera í dreifðara eignarhaldi. Fjárfesting Endre Røsjø er fyrsta skrefið í þá átt og við erum að vinna að því að fá fleiri stofnanafjárfesta að bankanum.“
Endre Røsjø á að baki langan feril í banka- og fjárfestingastarfsemi, allt frá 1970. Á meðal núverandi fjárfestinga hans er norska fjárfestingafélagið Centennial og verðbréfafyrirtækið Pinemont Securities í London sem er aðili að kauphöllinni þar. Á meðal fyrri fjárfestinga Røsjø er Pinemont Bank í Texas í Bandaríkjunum sem hann seldi fyrir nokkrum árum. Røsjø var hér á landi fyrir skömmu til að skoða kauptækifæri. Endre Røsjø telur fjárfestingu sína í íslenskum banka fela í sér mikil tækifæri og vonast til að koma að fleiri verkefnum á Íslandi á næstunni, m.a. í gegnum norrænan fjárfestingasjóð.
Í tilkynningu frá MP Banka í gærkvöldi er haft eftir Røsjø að bankinn hafi eins og hann sjálfur verið mjög áhættufælinn á árunum 2007-8 og lagt áherslu á ríkisskuldabréf.
„Hrunið var mikil þolraun fyrir fjármálafyrirtæki eins og MP Banka og forysta hans og starfsfólk hafa sannað að þau eru þrautseig og traust. Mér líst vel á að þróa bankann áfram með þeim,“ segir hann. „Ég væri mjög ánægður ef þessi fyrsta fjárfesting mín gæti eflt traust á íslenska bankakerfið.“