Hanskahólfið ekki öruggur staður

Bíllinn var skemmdur. Eigendurnir bera tjónið að hálfu.
Bíllinn var skemmdur. Eigendurnir bera tjónið að hálfu.

Hanskahólf er ekki geymslustaður fyrir bíllykla. Þetta er meginniðurstaða Hæstaréttar sem í vikunni kvað upp dóm í máli er varðar stuld á bíl, sem var eyðilagður.

Málavextir eru þeir að bíleigandi í Hafnarfirði fór á verkstæði til að sækja bíl úr viðgerð og tók með sér varalykla. Aðrir lyklar voru geymdir í hanskahólfi og gleymdust þar. Næsta morgun hafði verið brotist inn í bílinn sem fannst sama dag í nágrenni bæjarins, mannlaus og mikið skemmdur auk þess sem hljómflutningstækjum og fleiru hafði verið stolið úr honum.

Kröfum var hafnað

Bíleigandinn leitaði til tryggingafélags síns, VÍS, sem hafnaði öllum kröfum með vísan til þess að lyklarnir hefðu ekki verið á öruggum stað. Þeirri niðurstöðu vísaði bíleigandinn til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem sagði að honum skyldi bætt tjónið til hálfs. Hæstiréttur kvað upp úr með hið sama en í millitíðinni hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að tryggingafélagið skyldi bæta bíleigandanum skaðann að öllu leyti.

Bíllinn sem var eyðilagður var í eigu átján ára gamls pilts, en skráður á nafn móður hans.

„Við sættum okkur við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og vildum stoppa málið þar. Tryggingafélagið vildi hins vegar keyra málið alla leið og fara með það fyrir dómstóla. Við áttum aldrei undankomuleið frá kröfum þess og raunar efuðust fulltrúar félagsins um að brotist hefði verið inn í bílinn, enda þótt lögregluskýrsla vitnaði um glerbrot á staðnum þar sem bíllinn stóð. Það þurftu svo aldraðir foreldrar mínir að staðfesta fyrir dómi. Hvernig farið er með venjulegt fólk eins og í þessu máli er alveg með ólíkindum,“ segir Ingólfur Örn Arnarson, faðir piltsins.

Bílinn segir Ingólfur hafa verið virtan á um eina milljón króna. Bætur á grundvelli dómsins dugi fyrir lögfræðikostnaði sem sé 600 til 700 þúsund krónur. Að öðru leyti sitji eigandinn uppi með skaðann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert