Margir kúabændur eru í erfiðri stöðu vegna skulda og í nokkrum tilvikum virðist gjaldþrot óumflýjanlegt. Þetta á einkum við um bændur sem fjárfest hafa mikið á síðustu árum, byggt ný fjós, keypt vélar eða aukið við sig í framleiðsluheimildum.
„Staðan er erfið hjá hópi bænda og verulega farið að taka á, ekki síst andlega,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.
„Menn eru í þokkalegum málum séu skuldirnar tvö- eða þrefaldar miðað við veltu bús. En þegar skuldir eru orðnar fjór- ef ekki fimmfaldar, kannski 150 til 200 milljónir króna fer að reyna verulega á. Þessir bændur kalla eftir varanlegum úrræðum eins og svo margir aðrir,“ segir Baldur.
Kúabændur í landinu eru um 700 talsins. Flestir eru þeir í Skagafirði, í Eyjafirði og á Suðurlandi, það er í uppsveitum Árnessýslu, Landeyjum og undir Eyjafjöllum.