„Ástæðan fyrir því að við fórum í hulduheimsóknir er að það skekkir ekki myndina. Ráðgjafinn sem er að gefa ráð er að veita venjulegum viðskiptamanni bankans ráðgjöf og fær ekkert að vita að verið sé að taka niður upplýsingar,“ segir Sigurlaug Sverrisdóttir.
Hún ásamt Þóru Kristínu Arnarsdóttur gerði rannsókn fyrir lokaritgerð þeirra í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík. Rannsóknin fólst í því að 12 bankaútibú voru heimsótt, þrjú frá hverjum bankanna; KB banka, Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Byr. Rannsóknin var gerð sl. sumar og markmiðið var að komast að því hvernig og hvort fjármálaráðgjafar veittu ráð samkvæmt aðstæðum hvers og eins. Stöllurnar fengu utanaðkomandi fólk til að fara í bankann fyrir sig og leita ráða, svokallaðar hulduheimsóknir.
Niðurstöðurnar voru mjög einsleitar og því var ekki talið að gera þyrfti nákvæmari rannsókn heldur.
„Það er í raun sagt það sama við alla, burtséð frá þörfum þeirra,“ segir Sigurlaug.
Enginn af þeim tólf ráðgjöfum sem veittu fjármálaráðgjöf spurði um áhættuþol, fjárhagsleg markmið, framtíðaráform, hugsanlegan tekjumissi eða hvort viðkomandi einstaklingur hefði skrifað upp á ábyrgð fyrir annan.