„Nærtækara sýnist að huga að sérstakri deild innan Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem tekin yrðu fyrir mál frá sérstökum saksóknara, og sem dæmdi jafnframt önnur efnahagsbrot,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra um þær hugmyndir sem fram hafa komið opinberlega að koma upp sérdómstól, sem tæki fyrir dómsmál sem upp kunna að koma í kjölfar bankahrunsins.
Ragna segir að hugmyndin um sérdómstól væri vissulega rökrétt framhald af því að sett var á fót sérstakt embætti saksóknara vegna bankahrunsins. Slíkt yrði dýrt og því nauðsynlegt að huga að fleiri kostum.
Hún segir að fulltrúar dómstólanna hafa komið að máli við sig og lýst áhyggjum sínum vegna aukins málafjölda. Þar nefni menn, auk sakamála, einkum fjölgun einkamála vegna ýmissa gjaldþrotamála og ágreiningsmála vegna hrunsins. Dómstólar sjái því fram á aukið álag, bæði héraðsdómstólar og Hæstiréttur.