Ríkisskattstjóri og fulltrúar fjármálafyrirtækja eiga í viðræðum um hvort afskriftir lána vegna hlutabréfakaupa starfsmanna bankanna teljist hafa farið fram í fyrra eða í ár. Eins er deilt um hvort líta eigi svo á að lánin sjálf hafi verið felld niður eða tryggingarnar vegna þeirra. Engir skattar hafa verið greiddir vegna slíkra afskrifta enn sem komið er.
Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra kveða lög á um skattskyldu allra afskrifta lána, sem ekki fara í gegnum greiðsluaðlögun, nauðasamninga eða gjaldþrot.
„Nú erum við í samskiptum við fjármálafyrirtæki um þetta og eigum eftir að meta á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Kaupþings og Nýja Kaupþingi hvort tímamörk afskriftanna séu á þessu ári eða á árinu 2008.“ Sé niðurstaðan að lánin hafi í raun verið afskrifuð í fyrra kemur það til skattlagningar á þessu ári.
Ekki er þó eingöngu deilt um tímasetningar afskriftanna. „Eins eru sjónarmið um að ekki sé í raun verið að afskrifa lán heldur einungis að fella niður tryggingar. Það er mun flóknara mál og þarf jafnvel að skoðast á einstaklingsgrundvelli,“ segir Skúli.