Fyrstu skammtar bóluefnis gegn svínaflensu koma til landsins í október. Búið er að forgangsraða þeim sem eiga að fá bóluefnið. Meðal þeirra sem fyrstir eiga að fá efnið eru vanfærar konur, fólk með ýmsa alvarlega sjúkdóma og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn.
Áætlað er að fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn svínaflensu muni berast til landsins í október. Ísland hefur keypt 300.000 skammta af efninu og er það framleitt af lyfjafyrirtækinu GSK. Afgangur bóluefnisins mun svo berast mánaðarlega, allt til áramóta.
Eftir að Lyfjastofnun Efnahagssambandsins hefur metið öryggi og virkni boluefnisins verður lögð áhersla á að bólusetja annars vegar einstaklinga sem eru me ðalvarlega sjúkdóma og geta valdið því að sýking af völdum inflúensunnar reynist lífshættuleg og hins vegar einstaklinga sem eru mikilvægir til þess að halda uppi heilbrigðis- og öryggisþjónustu í landinu.
Sá hópur sem fyrstu fær bólusetningu er skipaður svona:
Einstaklingar eldri en 6 mánaða með eftirtalda
sjúkdóma: Alvarlega hjartasjúkdóma, alvarlega lungnasjúkdóma, alvarlega efnaskiptasjúkdóma, til dæmis insúlínháða sykursýki, tauga- og vöðvasjúkdóma, alvarlega nýrnabilun, alvarlega lifrarsjúkdóma, alvarlega ónæmisbresti.
• Fjölskyldur barna yngri en 6 mánaða sem eru með ofangreinda sjúkdóma, en bóluefnið er ekki ætlað börnum yngri en 6 mánaða.
• Þungaðar konur, en rannsóknir hafa sýnt að þær eru í aukinni hættu á að sýkjast alvarlega af völdum inflúensunnar.
• Of feitir einstaklingar (>40 BMI).
• Heilbrigðisstarfsmenn sem annast veika og lasburða einstaklinga og starfsmenn sem nauðsynlegir eru starfsemi heilbrigðiskerfisins.
Í þessum hópi eru einnig starfsmenn hjúkrunarheimila og sambýla.
• Lögregla, björgunarsveitir, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn og aðrir sem nauðsynlegir eru öryggi samfélagsins.
Markhópi I verður boðin bólusetning á fyrstu 3 vikum eftir að bóluefnið berst til landsins, en ætla má að fyrstu tvær sendingarnar dugi til að fullbólusetja þennan hóp. Markhópur I verður síðan endurbólusettur 3-4 vikum síðar.
Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins sem út kom fyrir skemmstu.