Staða íslenskra hafna víða slæm. Orsakirnar eru skuldsetning, lágar tekjur og smæð of margra hafna. Nefnd á vegum samgönguráðherra vinnur nú að mögulegum úrbótum.
Austurglugginn skýrir frá því að fjórði hafnarfundur Hafnasambands Íslands hafi verið haldinn á föstudag á Eskifirði. Hátt í sextíu fulltrúar víðs að á landinu sátu fundinn.
Gísli Gíslason, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands, segir í samtali við Austurgluggann að hagur íslenskra hafna sé bágborinn. ,,Vandi hafna skýrist ef til vill af þremur megin atriðum: Skuldsetningu, lágum tekjum og smæð of margra hafna. Verðbólga og gengisfall skrúfa upp skuldabyrði hafnanna þannig að lágar tekjur halda engan veginn í við þróun skulda og fjármagnskostnaðar. Möguleikar hafna til þess að halda við mannvirkjum eru afar takmarkaðir þrátt fyrir ríkisframlög og smæð margra hafna gerir þeim ókleift að ráðast í nauðsynlegar en kostnaðarsamar aðgerðir." Hann segir líka að nú starfi nefnd á vegum samgönguráðherra sem skoði fjárhag hafna og þar sitji meðal annars tveir fulltrúar Hafnasambands Íslands. Verkefni nefndarinnar sé í senn mikilvægt og flókið, en mikilvægt sé að nefndinni auðnist að setja fram ákveðin leiðarljós fyrir samgönguráðherra og hafnirnar til að fylgja í því skyni að hafnarrekstur geti þróast á eðlilegum rekstrarforsendum.
Ekki verði eingöngu litið til forsjár ríkisins heldur líka þess sem hafnirnar sjálfar geti gert til þess að styrkja stöðuna. Þau málefni sem fjalla þarf um eru til dæmis tekjugrunnur hafna og nýting gjaldtökuheimilda, sameining og aukið samstarf hafna, framhald ríkisstyrkja og kostnaður hafna af starfsemi ríkisins svo sem fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Engin einhlít lausn sé á vanda hafnanna, en mikilvægt sé að snúa vörn í sókn þar sem því verður við komið. Skoða þurfi sérstaklega stöðu þeirra hafna sem óhjákvæmilegt er að gegni áfram hlutverki sem hluti af innviðum byggða og samganga.
Sjá nánar hjá Austurglugganum.