Fréttaskýring: Virkjun og stækkun álvers í burðarliðnum?

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust fyrir nokkrum árum en þeim var síðan frestað. Gangi allt eftir og takist að útvega fjármagn fyrir áramót til að reisa virkjunina ættu framkvæmdir að geta hafist næsta sumar.

Forsvarsmenn álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík hafa óskað eftir að Landsvirkjun útvegi raforku til að auka árlega framleiðslugetu álversins um allt að 40 þúsund tonn. Stækkunin ætti sér stað innan byggingarmarka álversins og gildandi deiliskipulags. Orkuþörfin er nálægt 75 MW, samsvarar nánast framleiðslugetu Búðarhálsvirkjunar.

Samningar liggja ekki fyrir en forsvarsmenn Landsvirkjunar gera sér vonir um að hægt verði að ganga frá samningum um raforkusölu innan tíðar. Samkvæmt upplýsingum Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, er þá líka ráðgert að taka upp gildandi raforkusamning sem á að koma til endurskoðunar 2014. Gamli samningurinn yrði þá framlengdur og raforkuverðið endurskoðað.

„Við höfum verið í biðstöðu á meðan beðið er eftir að samningar næðust um raforkuna og fyrir lægi að þessi virkjun yrði reist. Við höfum haldið þessu verkefni lifandi og erum tilbúin að fara af stað,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins. Gangi allt eftir gæti stækkunin hafist upp úr áramótum.

Allt útlit er fyrir að góður markaður sé fyrir raforku frá Búðarhálsvirkjun því fleiri aðilar sækjast eftir að kaupa raforku frá Landsvirkjun. Eftirspurn er frá fyrirhuguðum gagnaverum og auk þess hefur Norðurál óskað eftir að kaupa viðbótarorku frá Landsvirkjun vegna álversins í Helguvík strax á fyrstu stigum framleiðslunnar vegna tafa sem orðið hafa hjá HS orku.

Ekki verður þó ráðist í nýjar fjárfestingar nema takist að útvega lánsfé á viðunandi kjörum. Lausafjárstaða Landsvirkjunar er sterk miðað við önnur fyrirtæki. Fyrirtækið getur vel greitt vexti og afborganir af sínum skuldum fram til ársins 2012 án þess að þurfa að taka ný lán, að sögn Friðriks Sophussonar, forstjóra fyrirtækisins. En fjárhagsstaða Landsvirkjunar er veik í alþjóðlegum samanburði. Eiginfjárstaðan er 31% en hjá sambærilegum fyrirtækjum erlendis er algengt að eigið fé sé yfir 40%.

„Við munum ekki fara af stað með nýjar virkjanir eins og við gerðum áður nema að tryggja fyrirfram til þess fjármagn á þeim kjörum sem verkefnið ber. Við höfum gefið okkur tíma fram undir áramót og leitað verður allra leiða til að finna út hvernig hugsanlegt sé að við getum fjármagnað verkefnið,“ segir hann.

Viðræður hafa átt sér stað við lífeyrissjóði um að koma að fjármögnun virkjunarinnar. Bent hefur verið á að hagkvæmt sé fyrir lífeyrissjóðina að vera með í sínu lánasafni langtíma kröfur hjá fyrirtæki á borð við Landsvirkjun. „Það er ekkert komið á borðið í þessum efnum en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að hún vilji fara í Búðarhálsvirkjun er mjög gagnleg skilaboð til markaðarins um að það sé enginn ágreiningur um þetta verkefni.“

Stórt verkefni

Áætlanir gera ráð fyrir að uppsett afl Búðarhálsvirkjunar verði 80-85 MW. Fjárfestingin hefur verið talin geta kostað u.þ.b. 25 milljarða kr. Ljóst er að ekki verður ráðist í svo stórt verkefni nema fyrir liggi samningar um sölu á raforku frá virkjuninni.

Á sínum tíma var Landsvirkjun í viðræðum um raforkusölu við Rio Tinto Alcan sem byggðust á áformum um verulega stækkun álversins í Straumsvík. Þau áform urðu að engu eftir að Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni í atkvæðagreiðslu.

Áætlað er að auka framleiðslugetu álversins um 40 þúsund tonn nú innan athafnasvæðis álversins. „Þeir hafa þar öll leyfi og heimildir til að bæta við í rekstrinum og það kallar ekki á breytt skipulag,“ segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert